Frumsýning!
Á laugardaginn frumsýnir Borgarleikhúsið farsann Úti að aka eftir Ray Cooney.
Úti að aka er farsi eins og þeir gerast bestir. Jón Jónsson, leigubílstjóri, er ekki allur þar sem hann er séður; hann á tvær eiginkonur, þær Guðrúnu í Hafnarfirði og Helgu í Mosfellsbæ. Guðrún veit ekki af Helgu og Helga hefur ekki hugmynd um Guðrúnu og Jón brunar sæll og glaður milli bæjarfélaga til að sinna báðum heimilum. En Adam var ekki lengi í Paradís! Börnin hans, af sitt hvoru hjónabandinu, kynnast fyrir slysni á Facebook og plana stefnumót. Til að afstýra stórslysi kokkar Jón upp fjarstæðukenndan lygavef þar sem enginn veit lengur hvað snýr upp og hvað niður. Á endanum er ekki ljóst hver hefur leikið á hvern eða hver er í rauninni úti að aka.
Höfundurinn Ray Cooney er farsælasta gamanleikjaskáld samtímans. Borgarleikhúsið hefur áður sýnt verk hans við gríðarlegar vinsældir og metaðsókn, Viltu finna milljón, Nei, ráðherra! og Beint í æð! Gísli Rúnar Jónsson íslenskaði og staðfærði öll verkin við afbragðs viðtökur.
Í Úti að aka er einvala hópur leikara undir stjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar.