Stefán Rís – sýning í kvöld
Frá þeim sem færðu ykkur Unglinginn kemur nýr eldhress gleðileikur með söngleikjaívafi fyrir alla fjölskylduna Óli Gunnar Gunnarsson og Arnór Björnsson slógu eftirminnilega í gegn með leikritið sitt Unglinginn árið 2014 og voru tilnefndir til 2 Grímu verðlauna.
Stefán rís byggir á bókinni “Leitin að tilgangi unglingsins” eftir þá félaga og Bryndísi Björgvinsdóttur sem Forlagið gaf út um seinustu jól. Alls taka 14 leikreyndir snillingar á aldrinum 14-18 ára þátt í verkinu. Óli og Arnór leika höfunda sem hafa ákveðið að skrifa besta leikrit allra tíma. Stefán aðalsöguhetjan,sem er leikin af Gretti Valssyni, er krúttlegur, geðþekkur og aðlaðandi strákur sem er að byrja í 10 bekk og verður ástfangin í fyrsta sinn. En með ástinni koma ótrúlega erfiðir hlutir eins og að missa málið og muna ekki hvað maður heitir og að breytast í hálfvita í hvert skipti sem maður hittir gyðjuna.
Höfundarnir vilja ólmir hjálpa og breyta atburðarrás verksins til að gera Stefán að þeim töffara sem hann þarf að verða til að ná í stelpuna. Það hefði þó kannski verið betra fyrir Stefán að eiga höfunda með aðeins meiri tilfinningagreind sem hefðu geta tekið betri ákvarðanir fyrir hann. Í lokin tekur Stefán svo eins og allar góðar hetjur málin í sínar hendur og rís upp gegn félagsþrýstingi og höfundaofríki.
Leikstjóri: Björk Jakobsdóttir Dansstjórn: Unnur Elísabet Söngstjórn: Þórunn Lárusdóttir Undirspil: Hallur Ingólfsson