Enginn hittir einhvern
Kraftmikið og ástríðufullt leikrit um sambönd fólks.
“ Ég er að fara að hitta…einhvern. Mann. Mann sem ég þekkti einu sinni. Ég verð að hitta hann. Ég verð að gera það.
Enginn hittir einhvern er kraftmikið, innblásið og afgerandi leikrit sem hrífur áhorfandann með sér í spennandi ferðalag um furður lífsins. Verkið leiðir áhorfandann inn í samband tveggja ástríðufullra einstaklinga sem birtast okkur í sextán stuttum senum sem eru allt í senn fyndnar, ögrandi og ljóðrænar.
Enginn hittir einhvern sem frumsýnt var í Norræna Húsinu síðastliðið vor verður gestasýning í Samkomuhúsinu á Akureyri 2.október. Höfundur verksins er hinn beitti penni Peter Asmussen sem meðal annars skrifaði handritið af kvikmyndinni Breaking the Waves með Lars von Trier. Þetta er í fyrsta sinn sem leikverk eftir hann er sýnt hérlendis. Asmussen vann hin virtu dönsku Reumert verðlaun sem leikskáld ársins fyrir Enginn hittir einhvern og aftur nú í ár fyrir nýtt verk.
Peter Asmussen var fæddur árið 1957 en féll frá langt fyrir aldur fram fyrr á þessu ári. Leikstjóri verksins er Simon Boberg sem gjörþekkir Asmussen og hefur leikstýrt mörgum frumuppfærslum á verkum hans. Einnig koma að verkinu hópur framúrskarandi listamanna frá Noregi, Finnlandi, Danmörku og Íslandi til að skapa verkinu umgjörð.
Höfundur: Peter Asmussen
Þýðandi: Jón Atli Jónasson
Leikstjóri. Simon Boberg
Leikarar: María Ellingsen og Björn Ingi Hilmarsson
Hreyfingar: Raisa Foster
Tónlist: Andreas Ljones
Leikmynd. Snorri Freyr Hilmarsson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Aðstoðarleikstjórar: Þóra Karitas Árnadóttir, Þórey Sigþórsdóttir
Tæknimaður: Hafliði Emil Barðason
Fjórar stjörnur – “Textinn virkar eins og tónverk með ólíkum leiðarstefjum. Nálgun Simons Boberg leikstjóra undirstrikar músíkina í verkinu. Leikurinn og allar hreyfingar eru stílfærðar og minna þannig á dansverk þar sem hver einasta handahreyfing og augnaráð er fyrirfram ákveðið. Leikurinn er agaður og undirstrikar kuldann sem af textanum stafar en undir niðri kraumar hiti, örvænting og þrá eftir tengslum sem hreyfði sterklega við rýni. “ – Silja Björk Huldudóttir MBL
“Þessi sýning á fundi karls og konu er ákaflega vel uppbyggð, líkamarnir tala í áreynslulausu hreyfingamunstri. Það er mýkt yfir allri nákvæmni leiksins… okkar hlutverk er jafn mikilvægt og leikaranna góðu… ég fer heim með ýmsa nýja fleti á tilverunni sem ég hef kannski áður veigrað mér við að hugsa um. Norræna sýningin á Enginn hittir einhvern er ljós í myrkri.” -María Kristjánsdóttir RUV Víðsjá
“Haldi maður bara örlítið uppá leikhús verður maður dreginn á tálar og manni skemmt frábærlega og allar leikhúsóskir manns munu rætast á þessari leiksýningu. Leikritið er aðeins rúmur klukkutími að lengd en satt best að segja það besta sem ég hef séð í áraraðir.“ -Lars Wredström, Börsen