PLAY
Hin indversk-ættaða Shantala Shivalingappa snýr aftur á Listahátíð í Reykjavík, nú í fylgd eins þekktasta danshöfundar nútímans, marokkósk-belgíska danshöfundinum Sidi Larbi Cherkaoui.
Play er sköpunarverk dansaranna og danshöfundanna Shantala Shivalingappa og Sidi Larbi Cherkaoui. Þungamiðja verksins er hugmyndin um leikinn, hvort heldur sem er hlutverkaleikinn sem fram fer á leikhúsfjölunum eða þau hlutverk sem fólk tekur sér í lífinu sjálfu. Verkið segir meðal annars sögu samskipta karls og konu og hvað gerist þegar orku þeirra lýstur saman. Líkt og börn að leik setja þau upp grímur og taka sér þannig nýtt hlutverk. Þannig sneiða þau hjá ímynd sinni, sleppa undan nafni sínu, ytra formi og sögu. En það getur reynst erfitt að flýja sjálfið og í því ferli kemur oft fleira í ljós heldur en það sem reynt er að fela.
Play er gáskafullt og tilfinningaþrungið verk, tileinkað danshöfundinum og frumkvöðlinum heitna, Pinu Bausch, en það var hún sem fyrst hvatti til gjöfuls samstarfs dansaranna tveggja.
Shantala Shivalingappa hefur verið kölluð dansari tveggja heima, fædd í Madras í suðurhluta Indlands en uppalin í París. Hún þykir hafa ótrúlegt vald á hvoru tveggja: hinum aldagamla Kuchipudi-dansi frá Indlandi og vestrænum nútímadansi. Þetta er í annað sinn sem Shantala heiðrar gesti Listhátíðar í Reykjavík með nærveru sinni, en hún sýndi í fyrra Kuchipudi-verkið Akasha, við lifandi flutning indverskra tónlistarmanna, við mikla ánægju viðstaddra.
Belgíski danshöfundurinn og dansarinn Sidi Larbi Cherkaoui þykir hafa einstaka sýn á dans, þar sem hann gerir ólíkum danshefðum og dönsurum ólíkra menningarheima jafnhátt undir höfði í sköpun sinni. Sýn hans og hæfileikar hafa fleytt honum langt en hann hlaut meðal annars Laurence Olivier-verðlaunin fyrir bestu nýja dansverkið, árin 2011 og 2014.
Leikstjórn: Sidi Larbi Cherkaoui, Shantala Shivalingappa
Hljómsveit: Patrizia Bovi, Tsubasa Hori, Gabriele Miracle, Olga Wojciechowska
Dansarar: Sidi Larbi Cherkaoui, Shantala Shivalingappa
Sviðsmynd: Filip Peeters
Búningar: Lieve Meeussen / Alexandra Gilbert
Lýsing: Adam Carrées
Myndband: Paul Van Caudenberg