Vesturport sigraði í 8 flokkum
Vesturport stóð á mánudaginn uppi sem sigurvegari hjá Broadway World samtökunum fyrir bestu sýninguna í Toronto árið 2015. Sýningin Í hjarta Hróa hattar sigraði í 8 flokkum, meðal annars sem besta leiksýningin, fyrir bestu leikstjórn, bestu leikmyndina og bestu búningana.
Vesturportshópurinn hefur ferðast víðs vegar um heiminn með sýninguna og mætti segja að stærsti sigur hans hafi komið með þessum verðlaunum. Toronto er ein stærsta leikhúsborg Kanada og fjöldinn allur af eftirsóttustu sýningum í Ameríku fer þar í gegn.
Í hjarta Hróa hattar er sýnd í Þjóðleikhúsinu og er Gísli Örn ánægður með viðtökurnar. „Það er frábært hvað sýningin er að fá góð viðbrögð hérna heima. Þó að Hrói höttur sé ekki okkar þjóðsaga virðist sýningin hafa snert einhvern góðan streng og það mætti segja að sýningin nái til breiðs hóps og virki fyrir alla, bæði þá sem eru að fara með börn og unglinga í leikhús og líka fyrir fullorðna,“ segir Gísli Örn.