Heimkoman
Teddy snýr óvænt heim á æskuheimili sitt í London með eiginkonu sinni Rut, eftir að hafa kennt heimspeki við háskóla í Bandaríkjunum í sex ár. Rut uppgötvar áður óþekktar hliðar á eiginmanni sínum þegar hún kynnist fjölskyldu hans: föður hans Max, fyrrum slátrara, föðurbróður hans Sam sem er bílstjóri, og bræðrum hans tveimur, hórmangaranum Lenny og boxaranum Joey. Þessir óhefluðu karlmenn taka að bítast um athygli Rutar og samskiptin á heimilinu verða sífellt ofsafengnari.
Leikrit Harolds Pinters hafa mörg hver allt að því hversdagslegt yfirbragð, en í þeim býr óvenjulegur kraftur, og undir yfirborðinu leynast heiftúðug átök, kynferðisleg spenna, kúgun og ótti. Heimkoman var frumflutt árið 1965, hlaut Tonyverðlaunin sem besta leikrit ársins og er af mörgum talið magnaðasta verk Pinters.
Leikstjóri sýningarinnar er Atli Rafn Sigurðsson. Leikarar eru Björn Hlynur Haraldsson, Eggert Þorleifsson, Ingvar E. Sigurðsson, Ólafur Egill Egilsson, Snorri Engilbertsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.