RAKARINN Í SEVILLA Í HAUST
Hin vel þekkta gamanópera Rossinis, Rakarinn í Sevilla, er næsta verkefni Íslensku óperunnar og verður frumsýning þann 17. október næstkomandi í Eldborg í Hörpu.
Með titilhlutverkið, hlutverk rakarans Fígaró, fer baritónsöngvarinn Oddur Arnþór Jónsson sem sló rækilega í gegn í Don Carlo hjá Íslensku óperunni síðastliðið haust og var valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í vor og var ennfremur á dögunum tilnefndur til Grímunnar sem Söngvari ársins. Í öðrum hlutverkum eru Gissur Páll Gissurarson sem Almaviva greifi, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir í hlutverki Rosinu, Bjarni Thor Kristinsson og Jóhann Smári Sævarsson í hlutverki Doktor Bartolo, Kristinn Sigmundsson og Viðar Gunnarsson í hlutverki Don Basilio, Ágúst Ólafsson í hlutverki Fiorello og Valgerður Guðnadóttir í hlutverki Bertu.
Leikstjóri verður Ágústa Skúladóttir, búninga hannar María Ólafsdóttir og leikmyndahönnuður er Steffen Aarfing. Hljómsveitarstjóri verður Guðmundur Óli Gunnarsson.
Alls verða fimm sýningar á óperunni í október og nóvember.