Gói til Þjóðleikhússins
Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson (betur þekktur sem Gói) stendur á tímamótum – næsta haust mun hann fara yfir í Þjóðleikhúsið en hann hefur verið fastráðinn í Borgarleikhúsinu. Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri er að vinna að sínu fyrsta leikári með tilheyrandi breytingum.
Gói hefur um árabil leikið fjölmörg burðarhlutverk í Borgarleikhúsinu og þar áður hjá Leikfélagi Akureyrar en á báðum stöðum var hann einn helsti burðarás leikhúsanna. Börn landsins þekkja hann einnig sem Góa í Stundinni okkar og úr bíómyndum með Sveppa sem slegið hafa í gegn hjá yngstu kynslóðinni. Fyrsta hlutverk Góa hjá Þjóðleikhúsinu verður eitt aðalhlutverkið í Hróa hetti sem Þjóðleikhúsið frumsýnir í samstarfi við Vesturport í september.
„Markmið okkar í Þjóðleikhúsinu er að ráða bestu leikara landsins til starfa og við erum spennt að fá Guðjón Davíð til liðs við okkur. Hann er fjölhæfur leikari og elskaður og dáður,“ segir Ari.