Fréttaútsendingar eiga minni í þjóðarsál Íslendinga. Leikmyndirnar og stefin endurspegla tíðaranda hvers tíma, og ógjörningur að finna sannari spegil á samtímann en nýjasta fréttatímann. Fréttir eru sannleikur, og flutningur á þeim sannasti performansinn, enda ekki um neinn leik né lygi að ræða heldur hlutlausa miðlun upplýsinga. Eða hvað? Hvað leynist handan myndavélarinnar? Af hverju talar fréttaþulurinn svona skringilega? Eru þessar fréttir allar eins skrifaðar? Eru þessar endalausu sjónvarpsútsendingar kannski að renna sitt skeið? Erum við orðin dofin?
Sviðslistahópurinn BEIN ÚTSENDING ætlar að gera þessum óljósu mörkum sannleikans og sviðssetningarinnar skil með því að rannsaka hina performatívu eiginleika fréttaflutnings; fagurfræði, form, aðferðir og umgjörð. Niðurstöður hópsins verða kynntar fyrir áhorfendum á sviði, í beinni útsendingu, þar sem allt er undir og ekkert má klikka.
Í fréttum er þetta helst – er partur af Umbúðalausu verkefni Borgarleikhússins þar sem markmiðið er að styrkja grasrótarstarf í íslensku sviðslistalífi og efla tengsl nýrra sviðshöfunda við áhorfendur.
Obbosí, eldgos!, alvörulaus ærslaleikur með undirliggjandi náttúruvá og tengingu við handanheima lítur dagsins ljós á fjölum Halaleikhópsins föstudaginn 10. febrúar. Leikurinn flytur okkur beint inn í mikilvægustu atvinnugrein landsins um þessar mundir. Við erum stödd á bóndabæ langt frá höfuðborginni þar sem boðið er uppá bændagistingu. Allt á bænum er lífrænt vottað. Þar hefur heimasætan fengið snjalla viðskiptahugmynd til að reyna að glæða ferðamannastrauminn með auglýsingu í Bændablaðinu. Gestirnir fá góðan afslátt af gistingu og mat, ef þeir í staðinn veita einhverja þjónustu á meðan þeir dvelja. Um sama leyti fer að gjósa í nágrenninu auk þess sem þrjár kýr bera á sama sólarhringnum og nú streyma gestir í bæinn sem aldrei fyrr. Heimasætan Fjóla á fullt í fangi með að höndla atburðarásina og einn misskilningur rekur annan í sambandi við dvöl gestanna á bænum. Almannavarnir og náttúruvársérfræðingar ráða ekki við eitt né neitt.
Sýningar verða á laugardögum og sunnudögum kl 17:00 í leikhúsi hópsins að Hátúni 12.
Halaleikhópurinn heldur um þessar mundir uppá 30 ára afmæli sitt og frumsýnir af því tilefni þetta verk sem er sérstaklega skrifað fyrir hann. Það eru 9 leikarar Halaleikhópsins sem stíga á svið í verkinu. Sigrún Valbergsdóttir skrifaði leikritið og er jafnframt leikstjóri. Halaleikhópurinn er blandaður leikhópur þar sem fatlaðir og ófatlaðir leika og stýra leikfélaginu jöfnum höndum. Fötlun er ekki hindrun heldur tækifæri. Leikarar Halaleikhópsins sem sumir eru hreyfihamlaðir leika fatlaða sem ófatlaða og hafa gert í 30 ár.
Frábær hópur listrænna stjórnenda með Stefán Jónsson í broddi fylkingar mun skapa ævintýralegan heim með litríkum og spennandi persónum
Gunnar Helgason hefur orðið einn vinsælasti barnabókahöfundur landsins á síðustu árum og átt hverja metsölubókina á fætur öðrum
Bráðskemmtileg ný tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson prýðir sýninguna sem verður frumsýnd 5. mars
Ævintýranleg leikmynd í smíðum og risabrúður eftir brúðuhönnuðinn Charlie Tymms og Ilmi Stefánsdóttur taka á sig mynd
Miðvikudaginn 1. febrúar hefst forsala á Draumaþjófinn, glænýtt íslenskt leikverk sem byggir á stórskemmtilegri bók Gunnars Helgasonar. Forsalan mun standa í fimm daga en bestu kjörin verða í boði fyrsta daginn en þá er hægt að kaupa miða með 1.500 kr. afslætti. Svo það margborgar sig að tryggja sér miða strax. Draumaþjófurinn verður sannkölluð stórsýning með grípandi lögum, miklu sjónarspili og óviðjafnanlegum dansatriðum. Leikgerð gerir Björk Jakobsdóttir, Stefán Jónsson leikstýrir og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson semur nýja tónlist fyrir sýninguna.
Hátt á fjórða tug leikara, barna og hljóðfæraleikara tekur þátt í sýningunni. Ilmur Stefánsdóttir hannar leikmyndina og kemur auk þess að hönnun risabrúða ásamt bresku brúðugerðarkonunni Charlie Tymms sem hefur hannað brúður fyrir fjölda leiksýninga og kvikmynda. María Th. Ólafsdóttir hannar ævintýralega búninga sem prýða hinar ýmsu rottur sýningarinnar, safnara, étara, bardagarottur og fleiri. Björn Bergsteinn hannar lýsingu og glænýja, stórskemmtileg tónlist semur Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Lee Proud semur dansa og sviðshreyfingar. Áhorfendur mega búast við æsispennandi upplifun með litríkum og skemmtilegum persónum.
Með helstu hlutverk í sýningunni fara Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Örn Árnason, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson auk fjölda annarra leikara, barna og hljóðfæraleikara.
Dagana 22.-24. apríl 2023 verður haldin ráðstefna í Helsinki um barnaleikrit fyrir börn á aldrinum 8-15 ára. Í boði eru styrkir til fararinnar fyrir tvo þátttakendur frá Íslandi. Greitt verður fyrir flug og gistingu í 2-3 nætur. Ráðstefnan er ætluð fyrir höfunda, leiklistarkennara og aðra sem starfa við leiklist með og fyrir börn. Fulltrúar barna munu taka þátt í ráðstefnunni og gefa sitt sjónarhorn.
Skipuleggjandi ráðstefnunnar er Huginn/Munin sem er samstarfsverkefni 8 félagasamtaka í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Markmið verkefnisins er að styðja við leikritaskrif ætluð fyrir uppsetningar með börnum.
Frekari upplýsingar er að finna á vefnum https://huginmunin.nu/konferens/ og einnig má hafa samband við Þjónustumiðstöð BÍL í info@leiklist.is eða 551-6974.
Fólkið í Blokkinni er hjartnæm saga af skrautlegu lífi fólks í blokk sem ákveður að setja upp söngleik og efniviðurinn er það sjálft. Fjölskyldan Tryggvi og Solla með unglingana sína tvo Söru og Óla eru ekki hin hefðbundna fjölskylda en hvað er hefðbundið? Hárfinnur hárfíni er í forsvari fyrir hljómsveitina Sóna sem æfir stíft í kjallaranum á meðan Robbi húsvörður reynir ólmur að koma í veg fyrir að söngleikurinn komist á koppinn og hefur almennt allt á hornum sér. Sjarmörinn Hannes reynir allt hvað hann getur að ganga í augun á Söru. Slagarar eins og Hárfinnur Hárfíni, Ofurmennið og að sjálfsögðu Fólkið í blokkinni, hljóma í þessari tilteknu blokk.
Margir kannast við sögurnar af fólkinu í blokkinni. Um er að ræða hálfgert smásagnasafn Ólafs Hauks sem kom fyrst út á bók 2001. Leikgerðin var fyrst sett upp af Leikfélagi Reykjavíkur 2008 og var fylgt eftir með diski með lögunum úr verkinu, Í leikgerðinni er sagan nokkuð breytt frá bókinni, þó að persónur séu að miklu leyti þær sömu og húmorinn sá sami.
Árið 2013 var svo sýnd 6 þátta sería á RÚV um þessar persónur sem var hvorki nákvæmlega sama saga og bókin og ekki heldur sama saga og leikverkið. En nánar að verkinu sjálfu.
Fólkið í blokkinni hjá Freyvangsleikhúsinu er í leikstjórn Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur og er tónlistin í höndum fagmanna, undir stjórn Atla Rúnarssonar og með Helga Þórsson í fararbroddi í söng.
Uppistandshópurinn VHS snýr aftur á svið með glænýtt uppistand! Í þetta sinn leggur hópurinn áherslu á að bjóða gestum upp á nærandi kvöldstund, heilandi upplifun og níutíu mínútna hláturskast.
VHS hefur getið sér gott orð fyrir ferskt grín og metnaðarfullar sýningar. Síðasta sýning þeirra, VHS krefst virðingar, gekk fyrir fullu húsi í Tjarnarbíó 2021-2022 og var um hríð vinsælasti viðburðinn á tix.is. Haustið 2022 frumsýndi hópurinn Fullveldisdagskrá VHS á RÚV en þátturinn vakti mikla athygli, hann er talinn einn vinsælasti fullveldisþáttur eftir grínhóp sem kom út það ár. Þau eru æst að komast aftur á svið með sína fjórðu sýningu.
Komdu í Tjarnarbíó og láttu róna flæða yfir þig á meðan þú horfir á ferskasta uppistand ársins. VHS velur vellíðan og býður þér að vera með.
Sýningin er í boði Símans.
VHS hrindir árinu af stað með upphitunarsýningum, þar sem góðir gestir leysa Vigdísi Hafliðadóttur af hólmi og áhorfendum býðst að sjá sýninguna þróast og verða til, þar sem að sýningin er enn í mótun er miðaverð lægra. Formleg frumsýning er svo 25. febrúar.
VERÐ Á UPPHITUNARSÝNINGU ER 3500kr.
VHS: Vilhelm Neto, Vigdís Hafliðadóttir, Hákon Örn Helgason og Stefán Ingvar Vigfússon.
Lalli töframaður mætir ásamt besta vini sínum, þvottabirninum Ringo í Tjarnarbíó í janúar. Hér er á ferðinni glæný og stórskemmtileg hálftíma löng töfrasýning, án orða, fyrir alla fjölskylduna (2-12.ára). Lalli og Ringo lofa nýjum töfrabrögðum, fíflalátum og gleði.
ENG. Lalli the magician along with his best friend Ringo the raccoon have a brand new show at Tjarnarbio theatre in January. Here’s a magic filled half-hour long show, without words, for the whole family. Lalli and Ringo will leave everyone wanting more!
POL. Magik Lalli będzie w Tjarnarbíó ze swoim najlepszym przyjacielem, szopem Ringo w styczniu. Oto zupełnie nowy i wspaniały pokaz magii, bez słów, dla całej rodziny. Lalli i Ringo obiecują zabawne magiczne sztuczki, i dużo zabawy
UKR. Фокусник Лаллі відвідає Тьярнарбіо зі своїм найкращим другом єнотом Рінго в січні. До вашої уваги абсолютно нове та веселе півгодинне магічне шоу , без слів , для всієї родини. Лаллі та Рінго обіцяють веселі фокуси, витівки та радість.
ESP. El mago Lalli y su mejor amigo el osito Ringo nos visitarán en enero en Tjarnabío. Esta obra ocurrente, amena y mágica, que no necesita palabras, tendrá durante media hora a toda la familia embelesada. Lalli y Ringo prometen mucha ilusión, alegría y nuevos trucos mágicos
Tómas Novachek, leikstjóri og leikskáld, hefur átt erfiðan dag í örvæntingarfullri en árangurslausri leit að réttri leikkonu í nýtt leikrit hans. Hann hefur gert leikgerð upp úr skáldsögunni Venus í feldi eftir hinn austurríska Leopold von Sacher-Masoch. Við hann er einmitt sado-masokismi kenndur. Í lok áheyrnarprófanna æðir skyndilega ýtin og einstaklega viljasterk leikkona inn á leiksviðið. Svo undarlega vill til að hún ber sama nafn og aðalsöguhetja leikritsins, – hún kann hlutverkið reiprennandi og veit grunsamlega mikið um efnivið verksins.
Engu að síður er leikstjórinn ekki sannfærður um að leikkonan geti leikið hina fáguðu og glæsilegu persónu sviðsverksins. Hann lætur þó til leiðast og leyfir henni að máta sig við hlutverkið og áttar sig fljótlega á að hæfileikar hennar og töfrar eru ómótstæðilegir.
Andrúmsloftið verður spennuþrungið, tilfinningaríkt og tælandi, mörk fantasíu og raunveruleika, drottnunar og undirgefni verða fullkomlega óljós.
Venus í feldi er heillandi stúdía um erótík, völd og baráttu kynjanna. Það sló rækilega í gegn er það var frumsýnt á Broadway árið 2011. Hlaut Tonyverðlaunin fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki og var tilnefnt sem besta leikritið. Roman Polanski kvikmyndaði árið 2013 og var myndin tilnefnd til fimm César verðlauna árið 2014.
Leikarar: Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson Höfundur: David Ives Þýðing: Stefán Már Magnússon Leikstjórn: Edda Björg Eyjólfsdóttir Leikmynd: Brynja Björnsdóttir Búningar: María Ólafsdóttir Tónlist og hljóðmynd: Halldór Eldjárn Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson og Jóhann Friðrik Ágústsson Dramatúrg, aðstoð við þýðingu og leikstjórn: Hafliði Arngrímsson
Chicago eftir John Kander, Fred Ebb og Bob Fosse er einn þekktasti og vinsælasti söngleikur allra tíma og hefur unnið til fjölda verðlauna. Chicago var frumsýndur á Broadway árið 1975 og sló strax í gegn en uppsetningin frá árinu 1996 gengur enn fyrir fullu húsi og er ein sú langlífasta á Broadway frá upphafi. Hafa ófáar kvikmyndastjörnur tekið að sér aðalhlutverkin m.a. Pamela Anderson, Brooke Shields og Melanie Griffith. Samnefnd kvikmynd frá árinu 2002 með Catherina Zeta Jones, Rene Zellweger og Richard Gere í aðalhlutverkum sló einnig í gegn og vann til fjölda óskarsverðlauna m.a sem besta kvikmyndin. Sagan gerist á þriðja áratug síðustu aldar í hinni spilltu og lostafullu Chicagoborg þar sem svik og prettir eru daglegt brauð. Glæpakvendin Velma Kelly og Roxy Hart berjast um athygli fjölmiðla í von um frægð og frama og þrátt fyrir að vera báðar á bak við lás og slá svífast þær einskis til að slá í gegn. Chicago er meinfyndin og skemmtileg ádeila á spillingu og yfirborðsmennsku fjölmiðla og réttarkerfisins. Söngleikurinn iðar af fjöri, hispursleysi og húmor ásamt ógleymanlegri tónlist og dansatriðum sem kitla öll skynfæri.
Þetta er í fyrsta sinn sem þessi vinsæli og margverðlaunaði söngleikur er sýndur á Akureyri í atvinnuleikhúsi. Chicago var fyrst sýnd í Þjóðleikhúsinu 1985 í þýðingu Flosa Ólafssonar og svo aftur í Borgarleikhúsinu árið 2005. Uppsetningin er samstarfsverkefni Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.
Leikstjóri: Marta Nordal Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson Danshöfundur: Lee Proud Leikmynd: Eva Signý Berger Búningar: Björg Marta Gunnarsdóttir Leikgervi: Harpa Birgisdóttir Ljósahönnuður: Ólafur Ágúst Stefánsson Hljóðhönnuður: Sigurvald Ívar Helgason Þýðing: Gísli Rúnar Jónsson
Jóhanna Guðrún: Velma Þórdís Björk Þorfinnsdóttir: Roxý Margrét Eir: Mama Morton Björgvin Franz Gíslason: Billly Flynn Arnþór Þórsteinsson: Amos Bjartmar Þórðarson: Marta Smarta
Með önnur hlutverk fara: Jónína Björt Gunnarsdóttir, Ahd Tamimi, Elma Rún Kristinsdóttir, Kata Vignisdóttir, Anita Þorsteinsdóttir og Molly Carol Birna Mitchell.
Sama listræna teymið og í Ellen B. – Marius von Mayenburg, Benedict Andrews, Nina Wetzel, Björn Bergsteinn Guðmundsson og Gísli Galdur
Ellen B. hefur fengið frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda
Einsdæmi að Þjóðleikhúsið setji upp þríleik. Margir áhorfendur sem sáu Ellen B bíða spenntir. Þrjú sjálfstæð verk sem mynda þó heild.
Þjóðleikhúsið frumsýnir Ex, annan hlutann í þríleik eftir Marius von Mayenburg í leikstjórn Benedicts Andrews, laugardaginn 28. janúar á Stóra sviðinu. Skemmst er að minnast heimsfrumsýningar á Ellen B., fyrsta hluta þríleiksins, sem frumsýndur var á annan dag jóla og hefur fengið gríðarlegt lof áhorfenda og gagnrýnenda. Eftirvæntingin er því mikil eftir Ex. Leikarar í sýningunni eru Nína Dögg Filippusdóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Listræna teymið er hið sama og í Ellen B., Benedict Andrews leikstýrir, Nina Wetzel hannar leikmynd og búninga, Björn Bergsteinn hannar lýsingu og Gísli Galdur er höfundur tónlistar. Í haust mun Mayenburg sjálfur leikstýra þriðja verki þríleiksins, Egal (Alveg sama).
Ex er flugbeitt sálfræðidrama og annað verkið í splunkunýjum þríleik Mariusar von Mayenburg sem verðlaunaleikstjórinn Benedict Andrews leikstýrir. Á fallegu heimili fyrirmyndarhjóna, arkítekts og læknis með tvö ung börn er bankað upp á um miðja nótt. Fyrir utan stendur fyrrverandi kærasta eiginmannsins og bráðvantar samastað eftir að hafa flutt út frá sambýlismanni sínum í miklum flýti. Fljótlega breytist heimilið í vígvöll þar sem ásakanir og uppljóstranir þjóta á milli eins og byssukúlur. Hvað dró þetta fólk hvert að öðru í upphafi?
Hvort skiptir meira máli í hjónabandi til lengdar, ástríðan eða sameiginleg markmið, lífssýn og samfélagsstaða? Af vægðarleysi og sótsvörtum húmor er tekist á við ágengar spurningar um hjónabandið, ástina og tærandi afbrýðisemi, lífsorkuna og lífsleiðann, fjölskylduna, kynlífið og ofbeldið í samböndum fólks.
Ex var frumflutt hjá Riksteatern í Svíþjóð 2021 í leikstjórn höfundar. Hér er á ferðinni réttnefnt leikhúskonfekt, þar sem stórleikarar í bitastæðum hlutverkum kryfja líf nútímafólks.