Leikfélag Húsavíkur æfir verkið Ávaxtakörfuna um þessar mundir. Verkið er eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og tónlistin er samin af Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni. Margir þekkja Ávaxtakörfuna þar sem aðeins ávextir mega búa en þó leyfist einu litlu jarðarberi að dvelja þar, með því skilyrði að sjá um að allt sé hreint og fínt í körfunni. En þegar gulrót birtist allt í einu í körfunni fer allt á annan endann.
Alls taka níu leikarar þátt í sýningunni og fjögurra manna hljómsveit. Þarna eru á ferðinni bæði þaulreyndir leikarar og tónlistarmenn og aðrir sem eru að stíga sín fyrstu spor á sviðinu í gamla Samkomuhúsinu. Leikstjórinn, Valgeir Skagfjörð er að vinna með Leikfélagi Húsavíkur í fyrsta sinn. Frumsýning verður laugardaginn 4. mars.
Draumaþjófurinn er glænýr íslenskur fjölskyldusöngleikur eftir Björk Jakobsdóttur (handrit) og Þorvald Bjarna Þorvaldsson (tónlist), sem hrífur bæði börn og fullorðna. Verkið er byggt á vinsælli bók eftir Gunnar Helgason. Leikstjóri er Stefán Jónsson. Risabrúður gera Charlie Tymms og Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahöfundur.
Æsispennandi þroskasaga, með litskrúðugum og skemmtilegum persónum, þar sem tekist er á við margt sem skiptir okkur svo miklu máli í dag. Sagan birtist hér í sannkallaðri stórsýningu með grípandi lögum, miklu sjónarspili og óviðjafnanlegum dansatriðum.
Stórsýning þar sem öllu er tjaldað til
Í Draumaþjófnum hverfum við inn í litríkan, spennandi og stórhættulegan söguheim sem á engan sinn líka! Hetjan okkar hún Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís – eða bara Eyrdís – þarf að taka á öllu sínu og uppgötva hugrekkið innra með sér þegar líf hennar umbreytist á svipstundu.
Í Hafnarlandi er allt eins og það á að vera og rotturnar þekkja sinn sess í lífinu: Safnarar safna mat, Njósnarar njósna, Bardagarottur halda óvinum frá og Étarar éta og hafa það gott. Efst í virðingarstiganum gnæfir Skögultönn foringi sem öllu ræður. En daginn sem Eyrdís dóttir Skögultannar gerir uppreisn tekur sagan óvænta stefnu. Rottuprinsessan litla neyðist til að flýja inn í Borgina þar sem hættur eru á hverju strái og framandi rottur leika lausum hala. Sjálfur Draumaþjófurinn er sendur til að bjarga henni – eða til að deyja!
Gunnar Helgason þarf ekki að kynna, en hann hefur á undanförnum árum sent frá sér hverja metsölubókina á fætur annarri fyrir börn og unnið til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókaverðlauna barnanna.