Í júní heldur Hugvísindasvið HÍ ráðstefnu um leikhús- og sviðslistarannsóknir. Yfirskrift ráðstefnunnar er Shifting Centres – In the middle of nowhere. Ráðstefnan er á vegum International Federation for Theatre Research, en hún er haldin árlega. Ráðstefnan fer fram á ensku. Heimsþingið hér á Íslandi hefur verið í undirbúningi í nokkur ár, að frumkvæði nokkurra íslensku leikhúsfræðinganna Magnúsar Þórs Þorbergssonar og Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur. Í fyrra var ráðstefnan haldin á Írlandi, en þurfti að fara fram í gegnum fjarfundabúnað. Síðasta staðarráðstefna IFTR var í Shanghai í Kína árið 2019. Ráðstefnan hér verður svokallað heimsþing, eða World congress, en ráðstefnurnar kallast það þegar aðalfundur samtakanna er haldinn, á fjögurra ára fresti.
Á ráðstefnunni verða um 800 erindi og tekur hún heila vinnuviku, mánudag 20. til föstudags 24. júní. Þrír aðalfyrirlestrar ráðstefnunnar verða haldnir í Háskólabíó sem og aðalfundur IFTR. Innan samtakanna eru einnig starfandi 22 rannsóknarhópar (Working groups) sem lúta að ýmsum sviðum leiklistar og/eða sviðslista og eiga fundir þeirra sinn stað innan ráðstefnunnar. Málstofur rannsóknarhópa eru opnar nema annað sé tekið sérstaklega fram. Einnig eru sérstakar málstofur fyrir New Scholars, sem eru sérstaklega ætlaðar fólki í masters- eða doktorsnámi í faginu. Auk þess verða almennar málstofur, eða General Panels.
Í tengslum við ráðstefnuna verða nokkrir útgefendur fagrita með sölusýningu á nýjum og nýlegum ritum í Bóksölu Stúdenta.
Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram sem sjálfboðaliða einhvern hluta vikunnar geta fengið ráðstefnugjaldið niðurfellt. Sjálfboðaliðar sjá m.a. um tæknilega aðstoð í stofum, vísa fólki til vegar og fleira tilfallandi.
Sumarleikhús Kómedíuleikhússins í Haukadal
Dýrafirði er orðið fastur liður í hinu vestfirska sumri. Sumarsýning ársins er,
Listamaðurinn, og verður frumsýnd miðvikudaginn 15. júní. Sýningin verður síðan
á fjölunum vikulega eftir það í Haukadalnum og ávallt á miðvikudögum.
Miðasölusími Kómedíuleikhússins er 891 7025. Kómedíuleikhúsið í Haukadal er
aðeins steinsnar frá þorpinu Þingeyri.
Listamaðurinn er áhrifamikil leiksýning um
Samúel Jónsson í Selárdal sem kallaður var, Listamaðurinn með barnshjartað. Listamaðurinn
skapaði sína eigin listaveröld í Selárdal sem skákar öllum Disney löndum. Það
er Elfar Logi Hannesson sem bregður sér í hlutverk Listamannsins og er hann
einnig höfundur leiksins. Leikstjóri er Marsibil G. Kristjánsdóttir.
Það verður einnig talsvert um gestakomur í
Sumarleikhúsi Kómedíuleikhússins. Fyrsta gestasýningin í sumar er einleikurinn,
Stelpur og strákar, eftir Dennis Kelly með Björk Guðmundsdóttur. Leikurinn
verður sýndur föstudaginn 3. júní og er miðasala þegar hafin. Fleiri gestir eru
væntanlegir og því um að gera að fylgjast vel með Kómedíuleikhúsinu í Haukadal
í sumar.
Nansen á Þingeyri
Kómedíuleikhúsið er einnig að bæta við sig
leikhúsi í sumar. Þar er um að ræða sérstakt Söguleikhús Kómedíuleikhússins sem
er til húsa í Salthúsinu á Þingeyri. Söguleiksýning ársins er, Nansen á
Þingeyri, og verður frumsýnd þriðjudaginn 21. júní í Salthúsinu. Sýningin
verður síðan á fjölunum vikulega eftir það og ávallt á þriðjudögum. Miðasölusíminn
sá sami 891 7025 og rétt er að geta þess að Salthúsið er staðsett í hjarta
þorpsins Þingeyri.
Söguleikurinn, Nansen á Þingeyri, segir af
einni eftirminnilegustu heimsókn í sögu þorpsins Þingeyri. En það er án efa
þegar landkönnuðurinn norski Friðþjófur Nansen dvaldi á eyrinni um tveggja
vikna skeið áður en hann lagði í sína fræknu för á Grænlandsjökul. Elfar Logi
Hannesson er bæði leikari og höfundur leiksins, búningahönnuður er Þ. Sunneva
Elfarsdóttir og leikstjórn annast Marsibil G. Kristjánsdóttir.
Nú er ekkert annað gera en að skella sér
vestur í sumar og njóta leikhússins vestfirska.
Samlestur er nýtt hlaðvarp, skemmtiþáttur þar sem stjórnendur elta uppi sköpunarglatt fólk úr áhugaleikfélögum landsins. Viktor Ingi Jónsson og Lilja Guðmundsdóttir sem stýra þættinum, setjast niður í hverri viku með „… sturluðum leikstjórum, fárveikum leikhúsbakteríusjúklingum, geggjuðum leikurum, brjálæðislega skapandi höfundum og öllu klikkaða liðinu á bakvið tjöldin“ eins og segir í fréttatilkynningu. Markmið með hlaðvarpinu er að búa til vettvang fyrir listamenn og félög/hópa af öllum toga til að koma verkum sínum á framfæri, vekja athygli á áhugaleikfélögunum og samfélaginu sem þau hafa að geyma og sýna hversu mikilvægt þetta samfélag er fyrir svo marga. Stjórnendur stenfa að því að gefa út 6 þætti á mánuði. Annan hvern föstudag koma út opnir þættir, þ.e.a.s. þættir sem eru aðgengilegir án endurgjalds á öllum helstu streymisveitum. Einnig er boðið upp á vikulega þætti sem eru í áskrift. Innifalið í áskriftinni er nýr þáttur alla miðvikudaga og allskonar aukaefni.
Eins og aðstandendur segja sjálfir: „Við ætlum að setja okkur allskonar markmið og prófa hluti sem við höfum aldrei gert áður og kannski hræðumst. Með því að velja áskriftarleiðina þá fáið þið tækifæri til að fylgjast með því ferli. Sjáum hversu langt við þorum að stíga út fyrir þægindarammann. Til þess að við getum haldið áfram að breiða út boðskapinn um mikilvægi áhugaleikfélaganna þá hvetjum við fólk til að styrkja okkur með því að tryggja sér áskrift inn á pardus.is/samlestur – þar er hægt að hlusta á allt efni sem við gefum út og þú þarft ekki neitt app. Þú getur spilað beint úr vafra. Áskriftin kostar ekki nema 990 kr.“
Lilja og Viktor auglýsa einnig eftir efni frá leikfélögunum:
„Við viljum endilega fá að heyra hvað sé í gangi hjá ykkar leikfélagi. Þannig ef þið hafið áhuga á að koma í spjall og segja okkur frá því sem er í gangi eða er framundan. þá hvetjum við ykkur til að hafa samband.
Vid erum líka að skoða þá hugmynd að setja upptökugræjurnar í tösku, leggja land undir fót og keyra út á land til að heimsækja leikhúsin og fá að sjá hvað er verið að bralla og taka upp þættina í leiðinni.“
Á undanförnum tveimur
áratugum hefur Taylor Mac skapað sýningar sem í senn ögra og fagna
fjölbreytileika mannlífsins, og hafa hlotið alþjóðleg verðlaun.
Í sýningunni A
24-Decade History of Popular Music fer Mac yfir sögu Bandaríkjanna frá stofnun
þeirra árið 1776 frá persónulegu og óvenjulegu sjónarhorni. Verkið var mörg ár
í vinnslu og var upprunalega sýnt sem stakur 24 klukkutíma viðburður. Sýningin
var valin á lista New York Times yfir bestu sviðslistaviðburði, bestu
leiksýningar og bestu tónlist ársins 2016, og árið 2020 hlaut Taylor Mac
Ibsenverðlaunin fyrir verkið.
Fyrir fyrstu sýningu
sína í Reykjavík hefur þessi margverðlaunaða sviðslistamanneskja sett saman
brjálæðislega skemmtilega dagskrá, þar sem svið og salur eru eitt, og blandað
er saman tónlist úr verkinu A 24-Decade og nýjum lögum. Á sviðinu með Mac verða
Matt Ray, tónlistarstjóri og útsetjari, og Machine Dazzle, búningahönnuður og
flytjandi, ásamt frábærri hljómsveit.
Útlendingurinn – morðgáta fékk mikið lof leikhúsgesta og gagnrýnenda á síðasta leikári en hætta þurfti sýningum fyrr en áætlað var vegna samkomutakmarkana. Verkið snýr nú aftur en athugið að takmarkaður sýningarfjöldi er í boði svo tryggið ykkur miða fljótt.
Árið 1970 fannst kvenmannslík í Ísdal rétt fyrir utan
Bergen í Noregi. Konan var alls ekki búin til útivistar og í farangri hennar
fundust meðal annars hárkollur og ýmis dulargervi. Við eftirgrennslan lögreglu
kom í ljós að hún hafði ferðast vítt og breytt um Evrópu á fölsuðum skilríkjum,
en hvorki tókst að upplýsa hver hún var, hvaðan hún kom né hvað í ósköpunum hún
var að gera í Bergen.
Í gegnum tíðina hefur líkfundurinn vakið bæði forvitni
og umtal í Noregi og um heim allan, en þrátt fyrir ótal kenningar hefur engum
tekist að leiða til lykta hvað gerðist djúpt inni í Ísdal og hvað dró þessa
útlensku konu til dauða. En það gæti breyst þegar annar útlendingur fer að
grafast fyrir um málið.
Þegar íslenskur sviðslistamaður, Friðgeir Einarsson,
flytur til Bergen, lætur hann heillast af ráðgátunni og gerir sitt besta til að
upplýsa hana. En kannski ekki á þann hátt sem búast hefði mátt við. Friðgeir er
hvorki lögreglumaður, né með reynslu af rannsóknarstörfum, en telur sig hafa
ákveðna innsýn inn í hugsunarhátt konunnar. Hann er jú aðkomumaður, rétt eins
og hún var.
Útlendingurinn
er skandinavískt raunsæisglæpadrama þar sem mál „Ísdalskonunnar“ er nálgast á
frumlegan hátt og nýjar kenningar dregnar fram í dagsljósið. Annað verkið frá
sama listræna teymi og setti upp verðlaunasýninguna Club Romantica, en það var
fyrsti hluti þessa ráðgátuþríleiks. Tónlist verksins er samin af Snorra
Helgasyni og flutt á sviðinu af honum sjálfum.
Hvað gerum við þegar
líkaminn meiðir sig? Hvernig lögum við hann? Heimurinn er stútfullur af hættum;
tröppum, skærum, hákörlum og rafmagnsinnstungum og þá er mikilvægt að gæta að
sér.
Dans-leikverkið er 30
mínútur að lengd. Það inniber húmor, smá blóð og þónokkra plástra og er skapað
fyrir 3-6 ára aldur. Verkið er heilandi ferðalag og kennir okkur hvernig við
getum fengið plástra ef við lærum að segja frá sárunum okkar.
Helgina 14. og 15. maí
kemur sænski leikhópurinn Martin Mutter til okkar í heimsókn með sýninguna
Áiii! Smá plástra-drama. Leikhópurinn nýtur mikilla vinsælda í heimalandi sínu
og hefur ferðast vítt og breitt með fyndin og fræðandi barnaverk sín. Hópurinn
lætur nú draum sinn rætast með ferðalagi til Íslands og af því tilefni vill
Tjarnarbíó bjóða gestum frítt á þessa skemmtilegu barnasýningu. Sýningin er án
orða og hentar því öllum óháð tungumáli. Í sýningunni nota leikararnir
sviðshreyfingar, dans og trúðaleik til að kenna börnum að gæta sín á hættulegum
hlutum en líka hvað líkaminn sé góður í að laga sig, sérstaklega þegar hann fær
hjálp, eins og t.d. með plástrum.
Gríptu tækifærið og
komdu með börnin í leikhús, alveg ókeypis.