Leikfélag Akureyrar, í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, setur á svið hinn ævintýralega og vinsæla fjölskyldusöngleik Benedikt búálf eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson í Samkomuhúsinu. Söngleikurinn, sem var frumsýndur árið 2002, er einn allra þekktasti barnasöngleikur þjóðarinnar og hefur töfrandi saga og grípandi tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar unnið hug og hjörtu íslenskra barna á öllum aldri.
Benedikt búálfur er byggður á samnefndum bókum eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson og fjallar um vinina Benedikt búálf og Dídí mannabarn og ferðalag þeirra um Álfheima. Tóta tannálfi hefur verið rænt og allur Álfheimur er í hættu. Vinirnir leggja af stað og á leiðinni lenda þau í ýmsum ævintýrum og ásamt dreka, blómálfum og alls konar furðuverum hjálpast þau að við að bjarga Álfheimum.
Með hlutverk Benedikts fer Árni Beinteinn Árnason en aðrir leikarar eru Björgvin Franz Gíslason, Valgerður Guðnadóttir, Króli, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson og Birna Pétursdóttir.
«ég var að leika mann þess vegna brá þér vegna þess að ég stóð upp alltíeinu kveikti eld þess vegna brá þér»
Ljóða- og myndlistarbókin KOK eftir Kristínu Eiríksdóttur öðlast nýtt líf sem tónlistar- og leikhúsupplifun á fjölum Borgarleikhússins.
KOK vakti verðskuldaða athygli þegar hún kom út árið 2014 og var m.a. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ljóð Kristínar fjalla á óvenjulega beinskeyttan hátt um samband og sambandsleysi, ást og andúð, þrá og skeytingarleysi þar sem mannlegt eðli er afhjúpað í öllum sínum dýrlega breyskleika.
Í bókinni mynda ljóðin og myndlistin eina heild og í sviðsverkinu er báðum þessum þáttum gert jafnhátt undir höfði og þeir fléttaðir saman við tónlistina og leikhústöfrana. Nútímaóperan KOK er flutt af Hönnu Dóru Sturludóttur, sem um árabil hefur verið meðal fremstu söngvara þjóðarinnar, Unu Sveinbjarnardóttur, fiðluleikara og Katie Buckley, hörpuleikara.
Verkið er sett upp í tengslum við tónlistarhátíðina Óperudaga, í samvinnu við leikhópinn Svartan jakka, en hann skipa auk Kristínar þær Þórunn Gréta Sigurðardóttir, tónskáld, og leikstjórinn Kolfinna Nikulásdóttir. Áður hafa þær unnið saman að útvarpsverkinu Fákafen sem hlaut Grímuverðlaunin 2018.
Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Eitt frægasta verk hins heimsþekkta fransk-rúmenska leikskálds Ionescos
Stór hópur leikara tekur þátt í sýningunn: Gói, Hilmir Snær, Ilmur Kristjáns og Arnmundur Backman í aðalhlutverkum.
Kötturinn Rúfus í sinni fyrstu burðarrullu í Þjóðleikhúsinu
Hversdagslegt lífið í litlum bæ umturnast þegar íbúarnir taka að breytast í nashyrninga, hver af öðrum. Allir nema hlédrægur skrifstofumaður sem er gagnrýndur af vinnufélögunum fyrir óstundvísi, óreglu og frjálslegt líferni. Hvers vegna er það einmitt bara hann sem reynir að spyrna við fótum og halda í mennskuna?
Áhorfendum verður nú boðið upp á nýja, ferska og fjöruga útfærslu Benedikts Erlingssonar og leikhópsins á þessu skemmtilega leikriti. Nashyrningarnir fóru eins og eldur í sinu um leikhús í Evrópu strax eftir að leikritið var frumflutt árið 1959, og var verkið leikið í Þjóðleikhúsinu strax árið 1961. Verkið er sett upp reglulega víða um heim enda spyr það enn áleitinna og ögrandi spurninga.
Jaðarhugmynd verður að stórri hugmynd
Benedikt Erlingsson hefur á undanförnum árum sett upp margar einstaklega eftirminnilegar sýningar og hlotið ótal verðlaun fyrir verk sín. Meðal ástsælla sýninga sem hann hefur staðið að eru Ormstunga, Jeppi á fjalli, Íslandsklukkan, Húsið, Súper og Jesú litli. Auk þess sem hann hefur verið atkvæðamikill sem kvikmyndaleikstjóri. Eftir hann liggja myndir eins og Hross í oss og Kona fer í stríð sem bera höfundareinkennum hans fagurt vitni.
„Á leiksviðinu sem stundum hefur verið kallað vígvöllur hugmynda og hugsjóna setjum við upp leikrit um hvernig lítil hugmynd verður að stórri hugmynd sem umbreytir heilu samfélagi. Hvernig jaðarhugmynd smitast sem vírus og verður að lokum að meginhugsjón heillar þjóðar. Eitthvað sem i raun og veru er alltaf að gerast á hverjum degi. Alls staðar.” segir Benedikt.
Söngleikurinn Níu líf sem fjallar um líf Bubba Morthens fer aftur á svið í Borgarleikhúsinu þann 10. apríl. Rúmlega ár er liðið frá frumsýningu söngleiksins og eru leikarar nú mættir aftur í leikhúsið til að æfa upp verkið.
Aðeins náðust þrjár sýningar áður en heimsfaraldurinn skall á. Rúmlega 16 þúsund leikhúsgestir hafa nú þegar tryggt sér miða á sýninguna að því fram kemur í fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu. Það er því mikil eftirvænting hjá landanum eftir þessari sýningu.
Bubbi Morthens er samofinn þjóðarsálinni í öllum sínum birtingarmyndum: Stjarnan sem rís úr slorinu; fyrst sem málsvari verkalýðsins, svo alþýðusöngvari þjóðarinnar, þá atómpönkari og gúanórokkari sem breytist í ballöðu-poppara sem syngur með stórsveitum. Skoðanaglaði gasprarinn, skrifblinda ljóðskáldið, fíkilinn sem reis upp, kvennamaðurinn og sá sem elskar aðeins eina konu, Kúbverjinn og Hollywood-víkingurinn, veiðimaðurinn, friðarsinninn og boxarinn. Sögur Bubba Morthens eru sögur okkar allra; sögur Íslands. En hver er hann í raun og veru? Og hver erum við?
Rúi og Stúi hafa smíðað vél sem getur allt. Hún getur búið til hluti, gert við hluti, gert afrit af hlutum og jafnvel gert nákvæma styttu af bæjarstjóranum. Eða hvað? Vélin bilar, bæjarstjórinn hverfur og dularfull kráka og enn dularfyllri stórþjófur koma öllu í uppnám. Hvað er til ráða annað en að baka sjálfur jólaköku? Fær Bergsteinn aðstoðarmaður sinn ástkæra bæjarstjóra aftur? Tekst Rúa og Stúa að gera við vélina?
Leikfélag Kópavogs sýnir barnaleikritið Rúa og Stúa í Leikhúsinu í Kópavogi. Leikritið er eftir þá Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson en leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson. Átta leikarar taka þátt í sýningunni en auk þess koma fjölmargir aðrir að uppsetningunni. Leikmynd er í höndum Norðanbáls, María Björt Ármannsdóttir sér um búninga, Vilborg Árný Valgaðrsdóttir um förðun, ljósameistari er Skúli Rúnar Hilmarsson og Hörður Sigurðarson sér um hljóð.
Nýtt íslenskt barnaleikrit, Kafbátur, verður frumsýnt í Kúlunni laugardaginnn 20. mars en leikritið var valið úr 150 verkum sem bárust þegar Þjóðleikhúsið auglýsti eftir barnaleikritum á síðasta ári. Höfundurinn, Gunnar Eiríksson, starfar sem leikari og leikstjóri í Noregi. Kafbátur gerist í óræðri framtíð, í heimi sem er sokkinn í sæ. Ýmsar bráðskemmtilegar persónur koma við sögu og verkið snertir bæði hjartað og hláturtaugarnar. Argentína er fjörug tíu ára stelpa sem ferðast með pabba sínum um höfin í kafbát í ókominni framtíð eftir að öll lönd eru sokkin í sæ. Heimasmíðaði kafbáturinn er heil ævintýraveröld, fullur af skrýtnum uppfinningum, og pabbi segir Argentínu skemmtilegar sögur um lífið hér áður fyrr, t.d. um mömmu Argentínu sem þau feðginin eru að leita að. En þegar dularfullar persónur skjóta óvænt upp kollinum þarf Argentína að spyrja sig að því hvort pabbi segi alltaf satt og hvort fólk hafi virkilega alltaf þurft að búa í kafbátum.
Kafbátur er fyrsta leikrit Gunnars Eiríkssonar, en hann er ungur leikari sem hefur búið og starfað í Noregi stærstan hluta ævinnar.
Í verkinu er sögð djúp og falleg saga með miklum húmor um fjölskyldur í margbreytileika sínum, um réttinn til þess að vita sannleikann og um heiminn sem við búum í.
Aldursviðmið: 5-12 ára
150 handrit bárust
Þjóðleikhúsið auglýsti í febrúar eftir nýjum leikritum fyrir börn, í því skyni að efla starfsemi leikhússins í þágu barna og hvetja til ritunar nýrra, íslenskra barnaleikrita. Leikritið Kafbátur var valið úr 150 verkum sem bárust, og fleiri handrit verða þróuð áfram.
Birkifræ og ræktun
Öll börn sem koma á sýninguna á Kafbáti fá birkifræ að gjöf. Þjóðleikhúsið á í samstarfi við birkiskogur.is í tengslum við sýninguna.
Á vefsíðunni birkiskogur.is getur þú lært sitthvað um birki og hvað þarf að gerast í lífi fræja svo þau spíri og verði að birkitrjám. Landvernd, Landgræðslan, Skógræktarfélag Kópavogs. Nánari upplýsingar á birkisogur.is
“Við erum oft hrædd um að börn þoli ekki að heyra sannleikann. Þess vegna langaði mig að leyfa barninu í leikritinu að velja og taka stórar ákvarðanir, til að sýna fullorðna fólkinu að börn þola slíkt.” Gunnar Eiríksson
The Last Kvöldmáltíð, sem er fyrsta verk Kolfinnu Nikulásdóttur, er heimsenda- og framtíðarsýn. Leikritið gerist eftir hrun mannlegs samfélags og fjallar um fimm manna fjölskyldu sem býr á botni tómarar sundhallar í Reykjavík, einangruð frá umheiminum. Fjölskyldan reynir að halda í hefðir samfélagsins sem þau tilheyrðu áður, jafnvel þó að þau muni ekki endilega hvernig það samfélag var. Þau gera allt til þess að horfast ekki í augu við sjálfan sig og hvaða áhrif gjörðir þeirra hafa haft á heiminn. Hvort er betra að stytta sér stundir eða stytta sér aldur? Eina leiðin út er að algjör breyting á hugsun og lífsháttum. Geta þessar fimm manneskjur farið að lifa lífinu á annan og nýjan hátt og þar með bjargað mannkyninu og heiminum?
The Last Kvöldmáltíð er sett upp af leikhópnum Hamfarir og er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg.
Höfundur: Kolfinna Nikulásdóttir Leikstjóri: Anna María Tómasdóttir Leikarar: Albert Halldórsson, Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Helga Braga Jónsdóttir og Ólafur Ásgeirsson Leikmynd: Brynja Björnsdóttir Búningar: Brynja Skjaldardóttir Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson Tónlist: Salka Valsdóttir Tæknimaður: Þóroddur Ingvarsson Framkvæmdarstjóri: Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Einn daginn neitar húsmóðirin að leika hlutverk sitt og hættir að sinna heimilinu. Hún fer í verkfall, leggur niður störf og leirtauið safnast upp. Hvernig tekst heimilisfólki að aðlagast breyttum hlutverkum kynjanna og nýjum valdahlutföllum? Verkið er fjölskyldusaga sem sögð er á tveimur mismunandi tímabilum með áherslu á áhrif hverrar kynslóðar á þá næstu og samskipti hjóna í blíðu og stríðu. Er hægt að brjótast undan hlutverkunum? Eða verður þú alltaf mamma þín?
María Reyndal hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem höfundur og leikstjóri. Kvenfélagið Garpur, sem setur upp verkið í samstarfi við Borgarleikhúsið, hefur áður vakið athygli fyrir Mannasiði og Sóleyju Rós, ræstitækni sem hlaut fimm Grímutilnefningar og tvenn Grímuverðlaun árið 2017 fyrir leikrit ársins og leikkonu ársins í aðalhlutverki. Mannasiðir var páskamynd RÚV 2018 og hlaut 4 Eddutilnefningar og var valið besta leikna sjónvarpsefni ársins 2018.
Kristbjörg Kjeld hlaut Grímuverðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki í Er ég mamma mín? á Grímuverðlaunahátíðinni 2020.
Verkið er styrkt af Leiklistarráði, Starfslaunasjóði listamanna og Reykjavíkurborg.
Leikfélagið Borg frumsýndi 39 þrep eftir Patrick Barlow síðastliðinn laugardag. Sýningar verða alla föstudaga og laugardaga í mars kl 20:00.
Herra Hannay er ósköp venjulegur, einmana piparsveinn í London. Dagar hans eru allir eins og fremur lítið að gerast í lífi hans. Óvænt flækist hann inn í sakamál þegar framið er morð í litlu íbúðinni hans. Þá upphefst flótti um leið og hann reynir að leysa ráðgátu sem skiptir sköpum fyrir loftvarnir landsins. Fallegar konur, stórundarlegur prófessor og lögreglumenn sem eru ekki það sem þeir virðast vera. Hvað verður um Hannay? Mun hann standa af sér allar áskoranirnar? Mun hann lenda í klóm lögreglunnar eða óvinarins? Eða ef til vill klóm ástarinnar? Þetta er æsispennandi glæpasaga sem allir ættu að geta haft gaman af! Margir þekkja samnefnda kvikmynd Hitchcocks sem hann gerði eftir sögu Barlows.
Sýnt verður föstudaga og laugaradaga kl. 20.00 í Félagsheimilinu Borg. Miðapantanir eru í síma 792-2757. Miðaverð er 3.000 kr. en 1.500 kr. fyrir 12 ára og yngri. Passað er vel upp á allar sóttvarnir, númeruð sæti og grímur og spritt á staðnum.