Um þessar mundir standa yfir æfingar á nýju íslensku verki úr heimi stjórnmálanna hjá Leikfélagi Kópavogs.
Þegar Einar ráðherra fær afleita niðurstöður úr skoðanakönnun rétt fyrir kosningar, er aðeins um eitt að ræða. Að koma með svo krassandi hugmynd, svo ótrúlega magnaða, að kjósendur kikna í hnjánum og geta ekki annað en kosið hann aftur. Sumir lofa öllu fögru en Einar er “maður framkvæmda” og lætur verkin tala. Við sem lifum venjulegu lífi þekkjum ekki hvað það er að vera stöðugt metin í skoðanakönnunum. Stjórnmálamenn eru stöðugt undir smásjá og metnir í skoðanakönnunum og þurfa að taka mið af niðurstöðum. Stíga niður eða stíga fram. Einar ráðherra, í gamanleikritinu „Fjallið“ eftir Örn Alexandersson, er ekki maður sem stígur niður. Hann stígur fram og aftur, til hliðar og upp en aldrei niður. Slíkt gera ekki ábyrgir stjórnmálamenn eða hvað? Höfundur leikstýrir verkinu og aðstoðarleikstjóri er Sigrún Tryggvadóttir. Frumsýning er áætluð í lok febrúar.
Poppý og Braggi ferðast til Böggabæjar í leiðangri til a bjarga vinum sínum úr klóm böggana sem trúa því að ef þau borða tröllin þá verða þau hamingjusöm. Á leið sinni hitta þau alls kyns verur og lenda í ýmsum ævintýrum á leið sinni til og í Böggabæ. Poppý er glaðleg og hress trölla prinsessa sem elskar ekkert meira en að syngja og vera með vinum sínum. En Braggi er andstæðan við Poppý, hann er fúll og áhyggjufullur tröllastrákur sem er alltaf hræddur um að verða étinn af böggum.
Tröll er leikverk sett upp af Leikfélagi Verkmenntaskólans á Akureyri og verður frumsýnt í Hofi þann 16. febrúar næstkomandi. Tröll er leikstýrt af Kolbrúnu Lilju Guðnadóttur. Innblásturinn kom frá frægu myndinni Trolls sem var gefin út árið 2016. Þær Kolbrún og Jokka G. Birnudóttir hafa unnið hörðum höndum í allt sumar við skrif á handritinu og er þetta í fyrsta skipti sem þetta verk er sett upp hér á landi.
Komið eins og þið eruð. Með barn á brjósti eða ekki. Svefnvana eða alsælar eftir heila nótt af ótrufluðum svefni þar sem þig dreymdi smá. Upplifðu leikhús byggt á mögnuðu dönsku verki, leikið af fjórum af frábærustu leikkonum Íslands. „Mæður“ fagnar vandamálunum og sigrunum sem fylgja móðurhlutverkinu, því sagða og öllu sem okkur er ekki sagt, klisjunum, mýtunum, því fáránlega og því frábærlega óvænta. Taktu barnið þitt með þér, manninn þinn, vinkonu, eða bara allan mömmuklúbbinn. Ekki vera hrædd við að trufla sýninguna, við vitum hvað við erum að gera og þolum það alveg. Endilega gefðu barninu þínu brjóst á meðan og við eigum fullt af auka bleyjum.
Höfundar: Christina Sederqvist, Julia Lahme, Mette Marie Lei Lange Anna Bro. ogo íslenski leikhópurinn Leikkonur: Aðalbjörg Árnadótttir, Kristín Pétursdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir Leikstjórn: Álfrún Örnólfsdóttir Leikmynd og búningar: Hildur Selma Sigurbertsdóttir Tónlist og hljóð: Steinunn Jónsdóttir og Þormóður Dagsson Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason
Um næstu helgi verður áhugasömum boðið að koma á samlestur á leikritinu Ferðamaður deyr hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Leikritið er nýr farsi eftir höfundasmiðju leikfélagsins og fjallar um ófyrirséðar afleiðingar af fjölgun ferðamanna og hið íslenska hugvit sem á sér engin takmörk. Verkið er í raun óður til íslenskrar ferðaþjónustu. Leikstjóri verksins verður Ólafur Þórðarson. Hann hefur sótt fjölda námskeiða í leikritun og leikstjórn og verið virkur höfundur og leikstjóri hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar frá árinu 2014.
Ólafur leikstýrði verkinu Ekkert að Óttast sem einnig var skrifað af höfundasmiðju LH og var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2015-2016. Stefnt er að frumsýningu í lok mars.
Allir þeir sem áhuga hafa á að heyra verkið og/eða taka þátt í uppsetningu þess á einhvern hátt eru boðnir velkomnir á samlestur á því laugardaginn 15. febrúar kl. 13.00 í Kapellunni, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði.
14. feb. frumsýnir Halaleikhópurinn stuttverkadagskrána Nú er hann sjöfaldur, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson leikstýrir.
Hverjir voru hvar, Gamli vinur og Kaffi og með því eftir Guðmund Lúðvík Þorvaldsson. Lokakeppnin eftir Halldór Magnússon, Kurteisi eftir Don Ellione, Verkið eftir Örn Alexandersson, Aftur á svið eftir Fríðu Bonnie Andersen.
Höfundarnir eiga það sameiginlegt að starfa innan raða BÍL eins og Halaleikhópurinn.
Leikarar eru tíu sumir gamalreyndir en aðrir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði. Alls taka 22 þátt í uppfærslunni. Sýnt er í Halanum leikhúsi Halaleikhópsins í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12. Inngangur að norðanverðu no. 3.
Frumsýnt verður föstudaginn 14. feb. nk. kl. 20.00.
Þann 14. febrúar frumsýnir hið alþjóðlega verðlaunaða Handbendi Brúðuleikhús verkið Sæhjarta, sem er einleikið brúðuverk fyrir fullorðna í Tjarnarbíói.
Dularfull kona á drungalegri strönd. Hún er rekald á ströndinni og úrhrak samfélagsins.
Verðlaunaleikhúsið Handbendi Brúðuleikhús kynnir þessa nýju, einleiknu og einstöku brúðulistasýningu fyrir fullorðna. Hennar margslungna furðusaga er sögð með heillandi blöndu brúðuleiks og hefðbundins leikhúss. Sæhjarta endurskapar og endurvekur gömlu sagnirnar um urturnar sem komu á land og fóru úr selshamnum til að búa og elska meðal manna.
Handrit og leikur: Greta Clough
Leikstjórn: Sigurður Líndal Þórisson
Tónlist og hljóðmynd: Júlíus Aðalsteinn Róbertsson
Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson
Dagsetningar: 14. – 19. og 27. febrúar – Tjarnarbíó, Reykjavik – kl. 20.00
Ekki ætlað börnum undir 16 ára að aldri. Inniheldur atriði og lýsingar á kynífi, ofbeldi og nekt.
Handbendi Brúðuleikhús er brúðu/leikhús með höfuðstöðvar á Hvammstanga þar sem leikhúsið setur upp frumsamdar sýningar sem ferðast um allan heim. Leikhúsið er leitt af Gretu Clough, fyrrum listamanni hússins hjá hinu heimsfræga Little Angel Theatre í London. Greta hefur unnið til verðlauna fyrir gæði og frumleika í brúðulistum, og sem leikskáld.
Samtal við leikhús er málfundaröð til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur þar sem atvinnuleikhúsfólk og fræðimenn koma saman og ræða uppsetningar á leikverkum sem eru í sýningu hjá leikhúsunum.
Í Veröld – húsi Vigdísar þann 17. febrúar kl. 17:00 verða pallborðsumræður um sýningu Borgarleikhússins á Vanja frænda eftir rússneska leikskáldið Anton Tsjékhov.
Hvaða erindi á verkið við okkur í dag?
Hvernig nálgast leikstjóri uppsetningu verksins?
Hvernig vinnur þýðandinn úr textanum?
Þessum spurningum og fleirum verður velt upp í Veröld þann 17. febrúar
Í pallborði verða Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku, Gunnar Pétursson þýðandi verksins, Brynhildur Guðjónsdóttir leikstjóri og Valur Freyr Einarsson leikari. Guðrún Kristinsdóttir, doktorsnemi í frönskum fræðum, stýrir umræðum.
Eftir Charlie Chaplin. Leikgerð: Nikolaj Cederholm Leikstjórn Nikolaj Cederholm
Aðeins þrjár aukasýningar í febrúar!
Leikgerð Nikolajs Cederholms af kvikmynd Chaplins The Great Dictator sló í gegn í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári, og eftir áramót gefst færi á að sjá sýninguna að nýju á Stóra sviðinu. Siggi Sigurjóns þótti vinna leiksigur í aðalhlutverkinu, og hin einstaka hljóðmynd sýningarinnar hlaut Grímuverðlaunin, en heiðurinn af henni eiga tónlistarmaðurinn Karl Olgeirsson, leikmunadeild Þjóðleikhússins og Aron Þór Arnarson úr hljóðdeild leikhússins. Anja Gaardbo og Kasper Ravnhöj voru einnig tilnefnd til Grímunnar í flokknum dans- og sviðshreyfingar ársins, en dansar og slapstick-atriði í sýningunni hafa vakið mikla athygli og kátínu.
Leiksýningin er á sinn hátt óður til meistaraverks Chaplins, en um leið vísar hún til samtímans, líkt og kvikmynd Chaplins gerði á sínum tíma.
Hér gefst íslenskum leikhúsgestum kostur á að sjá Sigga Sigurjóns stíga á svið í hlutverki flækingsins sem verður einræðisherra fyrir röð mistaka. Leikhópurinn fer á kostum í takt við listilegar hljóðbrellur Karls Olgeirssonar píanóleikara.
Heillandi, bráðskemmtileg og frumleg leiksýning um valdasýki, möguleika mennskunnar í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði í heiminum.
„Þessar kleinur hérna eru óvenju mjúkar og óvenju bragðgóðar“
Leikfélag Ölfuss frumsýnir Kleinur eftir Þórunni Guðmundsdóttur laugardaginn 8. febrúar í Versölum í Þorlákshöfn. Verkið fjallar um sérvitringinn Sigga, sem er smiður eins og Jesús, og sýnir okkur æviferil hans frá gröf til vöggu. Þórunn skrifaði upphaflega fyrsta þáttinn sem einþáttung og bætti svo við fjórum í viðbót þar sem fólk varð afar forvitið um þennan furðulega fýr og samskipti hans við samferðafólkið. Árný Leifsdóttir leikstýrir verkinu en leikarar eru þau Björg Guðmundsdóttir, Brynhildur Óskarsdóttir, Helena Helgadóttir, Ívar Örn Baldursson, Jóhanna Hafdís Leifsdóttir, Óttar Ingólfsson og Telma Rut Jónsdóttir. Miðasala er í síma 786 1250 á milli kl. 12-18 en hægt er að senda sms utan þess tíma. Miðaverð er 2500 kr. Uppselt er á frumsýningu 8. febrúar en aðrar sýningar eru sem hér segir:
Fim. 13. , þri. 18. , lau. 22. febrúar, fim. 27. febrúar og þri. 3. mars.
Sýningar hefjast kl. 20:00
Leikfélag Hveragerðis frumsýnir föstudaginn 7. febrúar nk. nýtt íslenskt leikrit, sem fengið hefur nafnið Þjóðsaga til næsta bæjar. Leikritið er byggt á þjóðsögum Jóns Árnasonar en 200 ár voru liðin frá fæðingu hans sl. haust. Jón skráði og safnaði hundruðum íslenskra þjóðsagna, ævintýra og munnmælasagna um ævina. Sögum sem annars væru án efa flestar gleymdar og tröllum gefnar. Með sýningunni vill leikfélagið heiðra minningu Jóns.
Höfundur leikgerðar og leikstjóri er hinn góðkunni leikari Örn Árnason en hann hefur einnig samið söngtexta og flest lögin í sýningunni. Verkið er spunnið saman úr nokkrum þekktustu þjóðsögum og ævintýrum sem Jón hélt til haga, meðal annars koma hinir „bráðskörpu“ Bakkabræður töluvert við sögu og að sjálfsögðu hin geðþekka Gilitrutt.
Æfingar hafa staðið yfir síðan í byrjun nóvember og hafa gengið vel. 22 leikarar fara með fjölda hlutverka, en alls koma 32 að verkinu. Sýnt er í Leikhúsinu að Austurmörk 23 Hveragerði. Miðapantanir eru í síma 863-8522.