Archive from október, 2017
Samstarf þjóðleikhúsa nágrannaeyþjóða á norðurslóðum. Þjóðleiksverkefnið stækkar stöðugt.
Leiklistarverkefnið Þjóðleikur hefur nú verið haldið að frumkvæði Þjóðleikhússins í samstarfi við aðila á landsbyggðinni fimm sinnum, og gengið afar vel, en sífellt fjölgar þeim landshlutum sem taka þátt. Leikhópum ungs fólks á aldrinum 13-20 ára er boðið að setja upp eitt af þremur nýjum leikverkum sem skrifuð eru sérstaklega fyrir Þjóðleik í hvert sinn. Við uppsetninguna njóta ungmennin stuðnings fagaðila í Þjóðleikhúsinu í formi námskeiða, bæði í Þjóðleikhúsinu og í heimabyggð, og lýkur verkefninu með leiklistarhátíð í viðkomandi landshluta.
Nú er unnið að því að Þjóðleikur nemi land á Grænlandi og í Færeyjum, en fulltrúar Þjóðleikhússins og þjóðleikhúsa Grænlands og Færeyja hafa unnið að undirbúningi verkefnisins allt frá hausti 2016. Af hálfu Þjóðleikhússins eru það Vigdís Jakobsdóttir og Björn Ingi Hilmarsson sem hafa haft umsjón með samstarfinu.
Haustið 2016 var verkefnið kynnt á Íslandi fyrir fulltrúum Grænlands og Færeyja, Jenny C. Petersen frá Tjóðpalli Føroya og AneMarie Ottosen frá Þjóðleikhúsi Grænlands – Nunatta Isiginnaartitsisarfia . Vinnusmiðja var haldin í Nuuk í apríl á þessu ári en hana sóttu, auk Vigdísar og Björns Inga, Susanne Andreasen, listrænn stjórnandi grænlenska þjóðleikhússins, AneMarie Ottosen, Najattaajaraq Joelsen, Carla Villadsen, Aputsiaq Brandt, Susanne Engel og Naja Dyrenholm Graugaard. Í kjölfarið var haldin vinnsmiðja í Þórshöfn í maí en hana sóttu, auk Björns Inga, Jenny C. Petersen leikhússtjóri, Hans Tórgard og Gunnvá Zachariasen. Áfram verður unnið að undirbúningi næsta sumar, en þá mun Björn Ingi Hilmarsson sækja leiklistarhátíð áhugafélaga á Grænlandi, og er vonast til að Þjóðleiksverkefninu verði hrundið af stað hjá grannþjóðum okkar hið allra fyrsta.
Verkefnið er styrkt af Nordisk Kulturfond.
André er tekinn að eldast. Á árum áður starfaði hann sem verkfræðingur. Eða var hann kannski steppdansari? Bláókunnugt fólk birtist á heimili hans og segist vera dóttir hans og maður hennar. Hver dirfist að halda því fram að hann geti ekki séð um sig sjálfur? Er verið að spila með hann? Getur verið að hann sé farinn að tapa áttum? Er heilinn farinn að gefa sig? Eða er heimurinn sjálfur genginn af göflunum?
Óvenjulegt og áhrifamikið verk um viðkvæmt málefni, fullt af sársauka og húmor.
Sýningin er um tveir tímar og korter – EITT HLÉ
Höfundur leikritsins, Florian Zeller (f. 1979), er ein skærasta stjarnan í frönsku leikhúslífi um þessar mundir, en frá árinu 2004 hefur hann sent frá sér fjölda verka sem hafa verið sett upp víða um heim. Faðirinn er frægasta leikrit Zellers en það hlaut Molière-verðlaunin og var tilnefnt til Olivier-verðlaunanna og Tony-verðlaunanna.
Florian Zeller hefur sent frá sér ellefu leikrit. Fyrsta leikrit hans var L’Autre (2004) en í kjölfarið fylgdu Le Manège (2005), Si tu mourais (2006) sem var verðlaunað af Académie française í flokknum Jeune Théâtre og tilnefnt til Molière-verðlaunanna, Elle t’attend (2008) sem var tilnefnt til Molière-verðlaunanna, La Mère (2010) sem var tilnefnt til Molière-verðlaunanna, La Vérité (2011) sem var tilnefnt til Olivier-verðlaunanna, Une Heure de tranquillité (2013), Le Mensonge (2015), L’Envers du décor (2016) og Avant de s’envoler (2016). Gerð var samnefnd kvikmynd byggð á leikritinu Une Heure de tranquillité.
Le Père eða Faðirinn (2012) hlaut hin virtu Molière- og Brigadier-leiklistarverðlaun þegar það var frumflutt í Frakklandi. Verkið naut einnig mikilla vinsælda á West End í London og Brodway í New York og var tilnefnt til Laurence Olivier-, Evening Standard-, Outer Critics Cirle-, Drama League- og Tony-verðlaunanna. Verkið hefur einnig verið tilnefnt til verðlauna í Ísrael, Þýskalandi og á Írlandi. Franska kvikmyndin Floride (2015) er byggð á leikritinu.
Florian Zeller hefur jafnframt sent frá sér fimm skáldsögur. Fyrir skáldsögu sína La Fascination du Pire hlaut hann Interallié-verðlaunin árið 2004, en skáldsagan var einnig tilnefnd til Goncourt-verðlaunanna.
Aðstandendur
Leikarar Eggert Þorleifsson, Edda Arnljótsdóttir, Harpa Arnardóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þröstur Leó Gunnarsson
Leikstjórn Kristín Jóhannesdóttir
Höfundur Florian Zeller
Tónlist Borgar Magnason
Hljóðmynd Elvar Geir Sævarsson og Borgar Magnason
Leikmynd Stígur Steinþórsson
Búningar Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing Halldór Örn Óskarsson
Þýðing Kristján Þórður Hrafnsson
Nú býðst kortagestum og öðrum velunnurum Borgarleikhússins að mæta á opna æfingu á Guð blessi Ísland miðvikudaginn 11. október. Þetta er hluti af stefnu leikhússins að opna húsið meira fyrir fólki.
Æfingin byrjar kl. 20 á Stóra sviði Borgarleikhússins og opnar húsið kl. 19:30. Miðarnir eru ókeypis.
Þarna gefst fólki einstakt tækifæri að fylgjast með vinnu leikara og listrænna stjórnenda stuttu fyrir frumsýningu. Verkið sjálft verður svo frumsýnt föstudaginn 20. október.
Guð blessi Ísland er fyrsta frumsýning leikársins á Stóra sviðinu. Þeir Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason sameina aftur krafta sína eins og þeir gerðu í Njálu.
Á Íslandi ríkir borgarastyrjöld. Búsáhaldabyltingin er hafin. Uppreisnarfólk stendur fyrir framan Alþingi og lemur potta og pönnur. Sigurinn er vís – vanhæf ríkisstjórn fellur. Í miðjum átökunum á Austurvelli samþykkir Alþingi að hrinda af stað rannsókn um orsakir hrunsins. Skýrsla kemur út í apríl 2010. Hún er yfirgripsmikil – en um fram allt æsispennandi, líkust reyfara sem varla er hægt að leggja frá sér. Þar er flett ofan af vafasömum viðskiptum ofurhetja íslenska bankakerfisins og ótrúlegum samskiptum æðstu embættismanna þjóðarinnar lýst. Lygileg samtöl lifna við – ólíkindaleg samskipti eiga sér stað. Þetta var partý aldarinnar. Þetta var siðlausasta skeið í sögu þjóðarinnar. Þetta var eitt mesta hneyksli í fjármálasögu Evrópu fyrr og síðar!
Áhorfendum er boðið í partý aldarinnar þar sem öllu verður tjaldað til og engum hlíft í ofsafenginni leit að sannleikanum – eða hvað? Af hverju fór allt til fjandans? Hvernig getur siðferði fólks brostið á þennan hátt? Hvernig er hægt að ræna heila þjóð öllu sem hún á? Og hvar stöndum við nú? Búum við í hinu nýja landi sem vonir stóðu til eftir hrunið? Hefur eitthvað breyst?
Hlökkum til að sjá frá ykkur,
starfsfólk Borgarleikhússins
Leikverkið Þú kemst þinn veg byggir á sögu Garðars Sölva Helgasonar sem glímir við geðklofa en tekst á við erfiðleikana á einstakan og heillandi hátt með umbunakerfi sem hann hefur tileinkað sér. Verkið er í senn gefandi, frelsandi og fyndið, en auk þess veitir það einstaka innsýn í lífsbaráttu manns með geðsjúkdóm. Batann og bakslögin, líf á ofsahraða og líf einn dag í einu.
Í leikverkinu fylgjumst við með persónunni Guðmanni halda fyrirlestur um Garðar Sölva besta vin sinn og umbunakerfið hans. Fyrirlesturinn tekur heldur óvænta stefnu og þróast ekki beint eins og Guðmann ætlar sér. Allt gengur á afturfótunum, einföldustu hlutir verða flóknir og Guðmann strögglar við að leysa málin. Á köflum brýst leikhúsið inní verkið líkt og ranghugmynd og það skásta sem Guðmanni dettur í hug að gera til að fela stressið er að „detta í“ að segja eins og eina sögu inná milli þess sem hann ætlar sér að byrja fyrirlesturinn…
Þú kemst þinn veg var frumsýnt þann 1. mars 2015 í fyrirlestrarsal Norræna hússins. Það er skemmst frá því að segja að verkið fékk afar góðar viðtökur og jákvæð viðbrögð. Aðstandendur verksins fengu hvatningu hvaðanæva að um að halda sýningum áfram og því var verkið sýnt í Tjarnarbíói í október 2015. Einnig voru nokkrar hátíðarsýningar sýndar í tengslum við útgáfu bókarinnar Glímt við geðklofa síðastliðinn desember, en hún fjallar einmitt um Garðar Sölva og umbunakerfið hans. Þar að auki hefur verkið verið sýnt á Aco alone, leiklistarhátíð á Suðureyri og í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
Og nú heldur ferðalag verksins áfram með sýningu á Akureyri 15. október næstkomandi. Athugið að einungis er um þessa einu sýningu að ræða.
Sýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri 15. október kl. 20.00
AÐSTANDENDUR
Höfundur og leikari: Finnbogi Þorkell Jónsson
Leikstjóri og dramatúrg: Árni Kristjánsson
Tæknimaður: Jenný Lára Arnórsdóttir
Tónlist: Svavar Knútur
Grafísk hönnun: Bjarki Björgvinsson
Ljósmyndir: Flores Axel Böðvarsson
Hjóðupptaka Harpa Fönn Sigurjónsdóttir
Framleiðandi: Jenný Lára Arnórsdóttir
Leikfélag Akureyrar frumsýndi Kvenfólk eftir Hund í óskilum síðastliðinn föstudag í Samkomhúsinu. Verkið er drepfyndið, revíuskotin sagnfræði með söng og tónlist. Í sýningunni fer Hundur í óskilum á hundavaði yfir kvennasöguna og veltir við hverjum steini og þúfu við mikla kátínu og gleði áhorfenda.
Á frumsýningunni var mikið hlegið, klappað, sungið með og sumir fengu ryk í augað. Í lok sýningar risu áhorfendur úr sætum og hylltu flytjendur og höfunda ásamt listrænum stjórnendum.
Hundur í óskilum; þeir Hjörleifur Hjartarsson og Eiríkur Stephensen eru bæði höfundar og flytjendur verksins. Þeir eru þó ekki alveg einir á báti heldur njóta fulltingis kvennahljómsveitar í sýningunni og leikstjórnar Ágústu Skúladóttur.
Hundur í óskilum varpar óvæntu ljósi á Íslandssöguna með húmorinn að vopni í sýningunni. Nú er komið að sögu kvenna og kvennabaráttu. Frá því að konan kom til landsins í lok nítjándu aldar hafa íslenskir karlmenn gert sitt besta til að laga sig að breyttum aðstæðum. En hefur okkur tekist sem skyldi? Sagan greinir frá örfáum konum – raunar svo fáum að það er búið að skíra rakettur í höfuðið á þeim öllum.
Miðasala á komandi sýningar er fullum gangi og fara miðar hratt. Verkið er sýnt í október og nóvember í Samkomuhúsinu en uppselt var á allar sýningar fyrstu sýningarhelgina.
Leikfélag Ölfuss æfir nú af krafti Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar.Leikarar að þessu sinni eru: Helena Helgadóttir, Ásta Margrét Grétarsdóttir, Róbert Karl Ingimundarson, Aðalsteinn Jóhannesson, Ingólfur Arnarson, Erla Dan Jónsdóttir, Jóhanna Hafdís Leifsdóttir, Oddfreyja H. Oddfreysdóttir, Kristín Svanhildur Helgadóttir, Kolbrún Dóra Snorradóttir, Ragnhildur Ýr Gunnarsdóttir og Árný Leifsdóttir.
Þetta er í fjórða skipti sem Gunnar Björn leikstýrir hjá LÖ en áður hefur hann sett upp verkin Blúndur og blásýra, Maður í mislitum sokkum og Himnaríki.
Blessað barnalán fjallar um Þorgerði gömlu sem á fimm uppkomin börn en gamla konan þráir ekkert heitar að öll börnin komi saman á æskuheimilinu þar sem hún býr enn ásamt Ingu einni af dætrunum. Mæðgurnar plana sumarfríið og eiga von á að öll systkinin snúi heim til að njóta austfirsku sumarblíðunnar með þeim. En hvað gerist þegar systkinin afboða komu sína hvert af öðru? Jú, Inga grípur til sinna ráða, arkar uppá símstöð og sendir skeyti: „mamma er dáin – komið strax – Inga“. Atburðarásin sem fer af stað í kjölfar skeytisins er hreint óborganleg og óhætt að lofa því að magavöðvarnir fái ærlega hreyfingu. Stefnt er að frumsýningu um miðjan október. Hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu ?
Leikfélag Ölfuss
Björn Leó Brynjarsson hefur verið valinn nýtt leikskáld Borgarleikhússins fyrir leikárið 2017 til 2018, en tilkynnt var um valið á athöfn í Borgarleikhúsinu 28. september. Hann tekur við af Sölku Guðmundsdóttur en það er Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur undir forystu Vigdísar Finnbogadóttur sem velur leikskáldið, en ásamt henni í nefndinni eru Brynjólfur Bjarnason og Kristín Eysteinsdóttir. Meðal fyrri leikskálda hússins hafa verið m.a. Tyrfingur Tyrfingsson, Auður Jónsdóttir, Jón Gnarr og Kristín Marja Baldursdóttir. Björn Leó mun vinna að nýju leikriti sem stefnt verður að uppsetningu á í Borgarleikhúsinu leikárið 2018 til 2019.
Björn Leó Brynjarsson er fæddur árið 1985. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 2005 og B.A. prófi í Fræðum og framkvæmd úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2011. Hann hefur m.a. starfað sem texta- og hugmyndasmiður hjá auglýsingastofunni Pipar, skrifað pistla fyrir Víðsjá og verið stuðningsfulltrúi á bráðageðdeild 32C, Landspítala. Brynjar Léo var meðlimur í stjórn Stúdentaleikhússins, stofnmeðlimur “action-leikhús-hópsins” Cobra Kai, þá hefur hann skrifað og leikstýrt m.a. verkinu Tranturinn og hnefinn auk þess að vera meðhöfundur og aðstoðarleikstjóri verksins Petra í uppsetningu Dansaðu fyrir mig sem sýnt var á Lókal 2014 og leiklistarhátíðinni í Tampere 2015. Hann skrifaði og leikstýrði verkinu Frami árið 2015 sem sýnt var í Tjarnarbíó og vakti mikla athygli áhorfenda og gagnrýnenda.
Föst staða leikskálds við Borgarleikhúsið er liður í þeirri yfirlýstu stefnu leikhússins að leggja sérstaka rækt við og styðja nýja íslenska leikritun en leikskáld Borgarleikhússins verður hluti af starfsmannahópi leikhússins.
Meðfylgjandi myndir var tekin þegar tilkynnt var um valið í Borgarleikhúsinu seinni partinn í dag.