Leikfélag Akureyrar, Menningarfélagið Hof og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sameinuðust undir merkjum MAk, Menningarfélags Akureyrar, um síðustu áramót. Leikritið Býr Íslendingur hér sem frumsýnt verður í september i Samkomuhúsinu á Akureyri verður ein af þeim leiksýningum sem hið nýja félag mun framleiða næsta vetur. Fjölbreytt dagskrá MAk verður kynnt 20. ágúst en ný heimasíða – www.mak.is mun opna um miðjan júní.
Leikgerð Þórarins Eyfjörð á bók Garðars Sverrissonar Býr Íslendingur hér verður fyrsta verkefnið sem leiklistarsvið MAk frumsýnir næsta vetur. Bók Garðars greinir frá lífsbaráttu Leifs Muller í fangabúðum nasista. Nú eru liðin 70 ár frá því að útrýmingarbúðir nasista voru frelsaðar af bandamönnum í lok seinni heimstyrjaldarinnar árið 1945.
Leifur ólst upp í Reykjavík en fór sem ungur maður til Noregs í nám. Hann er síðan staddur í Noregi þegar nasistar hernema landið. Hann gerir áætlun um að komast heim til Íslands en er svikinn í hendur Gestapó af öðrum Íslendingi, færður í einangrun og þaðan sendur til Grini fangabúðanna í nágrenni Oslóar . Þaðan flytja Þjóðverjar hann til Sachsenhausen sem eru alræmdar vinnu- og útrýmingarbúðir Nasista. Frásögn Leifs er einstök í bókinni, hugrökk og hispurslaus og vakti mikla athygli þegar hún kom út á sínum tíma.
Frásögnin í Býr Íslendingur hér brýnir fyrir okkur ábyrgðina sem fylgir því að vera manneskja og segir okkur sögu sem aldrei má falla í þagnargildi.
Hinn þjóðkunni leikari Arnar Jónsson sem stjé sín fyrstu sviðsspor í Samkomuhúsinu á Akureyri mun leika í sviðssetningunni ásamt Benedikt Karli Gröndal. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson og tónlist er í höndum Davíðs Þórs Jónssonar. Um leikmynd og búninga sér Íris Eggertsdóttir.
Sýningin verður frumsýnd í Samkomuhúsinu þann 18. september.
Á morgun miðvikudaginn 27.maí kl 10:05 verður opinn samlestur á breska verkinu At eftir Mike Bartlett í forsal Borgarleikhússins. Leikhússtjórinn Kristín Eysteinsdóttir leikstýrir verkinu og leikarar eru þau Vala Kristín Eiríksdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Valur Freyr Einarsson og Eysteinn Sigurðarson. At verður frumsýnt í haust og verður fyrsta frumsýning nýs leikárs.
Um verkið: Tvö störf. Þrír umsækjendur. Vinnufélagar bíða eftir mikilvægu starfsviðtali og fjandinn er laus. Fals og lygi svífa yfir vötnunum. Persónurnar leggja sig fram um að atast hver í annarri af grimmilegu miskunnarleysi. Staðan er fullkomlega ótrygg og áhorfendur komast ekki hjá því að sogast inn í keppnina. Samviskubitið gerir sig líklegt til að naga okkur á hol. Leikskáldið bendir á nístingskaldan sannleikann um okkur sjálf. Enginn vill vera í hlutverki þess sem tapar.
Mike Bartlett (f.1980) er eitt helsta og afkastamesta leikskáld Breta um þessar mundir. Hann hefur sent frá sérfjöldamörg verk á undanförnum arum, Bull (At) var frumsýnt 2013 og endursýnt í Young Vic leikhúsinu í London 2015 þar sem það hlaut frábærar viðtökur og var sýnt fyrir fullu húsi í margar vikur. At hlaut Bresku leiklistarverðlaunin árið 2013 sem besta nýja leikritið.
ÓKEYPIS AÐGANGUR og allir velkomnir.
Óperan Peter Grimes eftir Benjamin Britten var frumflutt á Íslandi síðastliðinn föstudag, 22. maí í Eldborg í Hörpu. Tónleikauppfærslan er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar, Hörpu og Listahátíðar í Reykjavík. Tvær erlendar stórstjörnur úr heimi óperunnar sungu aðalhlutverkin í þessari mögnuðu óperu, Stuart Skelton í titilhlutverkinu og Judith Howarth í hlutverki Ellen Orford, ásamt tíu íslenskum einsöngvurum, Kór Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Peter Grimes er talin ein allra merkasta ópera 20. aldarinnar og er reglulega á fjölum helstu óperuhúsa heims þó hún sé ekki frumflutt hérlendis fyrr en nú. Óperan segir frá ógæfu skipstjórans Peter Grimes. Ungir piltar sem Grimes ræður sér til aðstoðar týna lífinu hver á eftir öðrum og er honum í kjölfarið afneitað af bæjarbúum, með átakanlegum afleiðingum.
Ástralski tenórinn Stuart Skelton, sem var valinn Söngvari ársins á International Opera Awards árið 2014, syngur titilhlutverkið. Hann hefur túlkað Peter Grimes víðsvegar um heim og hlotið mikið lof fyrir, og var tilnefndur til hinna virtu Olivier-verðlauna fyrir túlkun sína við ENO, Ensku þjóðaróperuna. Með hlutverk Ellen Orford fer Judith Howarth, en þau Skelton hafa sungið hlutverkin saman í ENO. Í öðrum hlutverkum voru Ólafur Kjartan Sigurðarson sem Balstrode, Hanna Dóra Sturludóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Snorri Wium, Viðar Gunnarsson, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Garðar Thór Cortes, Oddur Arnþór Jónsson og Jóhann Smári Sævarsson. Daníel Bjarnason er hljómsveitarstjóri, en sviðssetning er í höndum Kolbrúnar Halldórsdóttur, útlit hannar Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir og lýsingu annast Páll Ragnarsson.
Leiksýningin Eldhúsið segir frá eldri manni og lítilli stelpu, tveimur ólíkum persónum, sem finna autt hús. Þau vilja bæði búa í húsinu en það er óljóst hver var fyrri til að finna það. Upphefst galsafullur leikur um það hver á réttinn til að búa í húsinu. Geta þau kannski bara mögulega búið þar bæði?
Mikið stuð og leikgleði prýðir þessa sýningu og skemmtilegar leikhúslausnir í anda Jo Strømgren.
Leiksýningin Eldhúsið var sett saman árið 2012 og er fyrsta sýning Jo Strømgren sem er sérstaklega ætluð börnum og hentar fullkomlega fyrir aldurinn 5-12 ára. Fólk á öllum aldri getur þó skemmt sér þar sem húmorinn er lúmskur. Sýningin er 50 mín. að lengd.
Eldhúsið hefur verið sýnd um 200 sinnum vítt og breitt um Noreg og fær einstaklega góðar viðtökur hjá krökkum. Jafnvel þeir órólegustu sitja á sínum stað og fylgjast með sýningunni, enda er mikið að gerast á sviðinu og snörp atriðaskipti.
Leikarar: Ívar Örn Sverrisson og Hanne Gjerstad Henrichsen.
Jo Strømgren Kompani var stofnað árið 1998 í Noregi og hefur síðan þá orðið ein þekktasti sjálfstæði leikhópur í Skandinavíu. Flokkurinn hefur ferðast með verk sín um fleiri en 50 lönd og u.þ.b. 150 sýningar eru haldnar árlega, bæði í stórum þjóðleikhúsum og smærri stöðum. Þau eru einnig þekkt fyrir námskeiðin sem þau halda.
Nú fagnar Möguleikhúsið 25 ára afmæli með uppsetningu á leikverkinu Hávamál eftir Þórarin Eldjárn og leikhópinn. Leikstjóri er daninn Torkild Lindebjerg, en hann leikstýrði sýningunni Tveir menn og kassi hjá Möguleikhúsinu, sem tilnefnd var til Grímuverðlauna 2004.
Unglingsstúlka og móðir hennar hafa villst á fjöllum. Þær koma að undarlegu tré þar sem þeim birtist dulafullur maður er kemur undarlega fyrir. Er hann kominn til að hjálpa, eða aðeins til að rugla þær í ríminu? Er þetta geðsjúklingur, helgur maður, tröll eða jafnvel hinn forni guð Óðinn?
Hann skiptir sífellt um hlutverk, talar öðrum þræði í bundnu máli og misskiljanlegum heilræðum, en áður en yfir lýkur þurfa mæðgurnar að horfast í augu við sjálfar sig og samskiptin sín á milli.
Á tíu ára afmæli Möguleikhússins árið 2000 var leikverkið Völuspá eftir Þórarinn Eldjárn frumsýnt á Listahátíð. Sýningin hlaut góðar viðtökur, vann til Grímuverðlauna og var sýnd á leiklistarhátíðum viða um lönd.
Fyrir áhorfendur frá 10 ára aldri.
Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík.
Íslenski dansflokkurinn og Listahátíð í Reykjavík sameinast í stórverkefni. BLÆÐI er einstakt danskvöld þar sem sýnd verða verk eftir þrjá heimsþekkta danshöfunda.
Danshöfunarnir þrír eru þessir:
Damien Jalet hefur t.a.m. samið verk fyrir Parísar Óperuna, Skoska Dansleikhúsið, Louvre safnið í París og Íslenska dansflokkinn við mjög góðan orðstír og unnið með stórstjörnum úr listaheiminum á borð við Marinu Abramovic, Bernhard Willem og Christian Fennesz.
Erna Ómarsdóttir er einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga. Hún hefur unnið með nokkrum fremstu dans- og sviðlistahópum Evrópu og starfar núna sem listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins.
Sidi Larbi Cherkaoui er einn sá allra eftirsóttasti danshöfundur heims í dag og hefur meðal annars samið fyrir Parísar Óperuna, Cedar Lake í New York og Konunglega danska ballettinn. Hann tók nýverið við starfi listræns stjórnanda Flæmska Konunglega Ballettsins.
Verkin eru þessi:
Black Marrow eftir Damien Jalet og Ernu Ómarsdóttur við frumsamda tónlist Ben Frost.
Í Black Marrow birtist tær máttur líkamans sem reynir að lifa af í kæfandi heimi þar sem eðlishvötin hefur verið iðnvædd. Black Marrow var upprunalega samið fyrir Chunky Move, einn helsta nútímadansflokk Ástralíu, og sýnt á Alþjóðlegri Listahátíð Melbourne árið 2009. Verkið birtist hér í nýrri mynd, sérstaklega útfært fyrir og með Íslenska dansflokknum.
Les Médusées eftir Damien Jalet.
Ásækið kventríó, upphaflega samið fyrir Louvre listasafnið í París, sem sækir innblástur sinn í hið töfrandi eðli gyðjustyttnanna í Marly garði safnsins.
Tvö brot úr hinu geisivinsæla verki Babel(words) eftir Damien Jalet og Sidi Larbi Cherkaoui.
Sin er nautnafullur og kraftmikill dúett sem sækir innblástur sinn í goðsagnirnar um hið upprunalega par og þeirra sameinuðu og sundruðu krafta.
The Evocation er nútíma túlkun á Zikr, athöfn innan súfisma, þar sem endurtekning á einu orði er notað til að varpa burt álögum.
Íslenski hópurinn sem hefur æft long-form improv (langspuna) eða „Haraldinn„ síðan vorið 2014 undir stjórn Dóru Jóhannsdóttur mun stíga á svið í New York á Del-Close hátíðinni undir nafninu „The Entire Population of Iceland“. Sá hópur er spunaleikhópur innan leikfélagsins Improv Ísland. Í Improv Ísland hópnum eru m.a leikarar, leikstjórar, tónlistarmenn, verkfræðingur, sundlaugavörður og frístundakennari. Þetta eru samtals 18 manns sem munu sýna á Del Close spunahátíðinni hjá Upright Citizen´s Brigade leikhúsinu í New York.
Del-Close hátíðin er haldið til heiðurs Del Close heitnum sem er einn helsti frumkvöðull improv í Bandaríkjunum en hann kenndi m.a Tinu Fey, John Candy, Bob Odenkirk, Mike Myers og Bill Murray. Á hátíðinni eru spunasýningar sýndar í 7 leikhúsum út um alla Manhattan allan sólarhringinn í 72 klukkutíma. Þetta er í 17 sinn sem hún er haldin og í ár kemur íslenskur leikhópur þar fram í fyrsta skipti – „The Entire Population of Iceland“. Ragnar Hansson kvikmyndagerðamaður verður með í för þar sem hann hyggst gera heimildarmynd um ferð hópsins.
Í long-form improv er gamanleikrit spunnið á staðnum út frá einu orði frá áhorfanda. Ýmis form og aðferðir eru til innan long-form og mun íslenski hópurinn sýna spunasýningu innan forms sem það setur saman sérstaklega fyrir hátíðina, sem kallast: The Improvised Saga. Eða: ,,Uppspunnin Íslendingasaga”.
Í Bandaríkjunum er mikil og löng hefð fyrir grín-spuna og Upright Citizen´s Brigade (eða UCB) er eitt þekktasta spunaleikhús í Bandaríkjunum. Það rekur einnig skóla þar sem Dóra hefur verið að læra í síðastliðin ár. Á hátíðinni sýna margir af þekktustu gamanleikurum og handritshöfundum Bandaríkjanna. Í ár munu m.a stofnendur UCB: þ.m.t Amy Poehler (úr SNL og Parks and Recreation), Ellie Kemper (úr Unbreakable Kimmie Schmidt, Bridesmaids) og ótal fleiri koma fram.
Improv Ísland er í samstarfi við Þjóðleikhúsið þar sem að leikhópurinn stefnir á að vera með vikulegar spuna-sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun næsta árs. Hægt verður að fylgjast með leikhópnum á facebook-síðu hópsins: facebook.com/improviceland og á twitter @improviceland.
Hópurinn verður með fjáröflunarsýningar í Þjóðleikhúskjallaranum föstudaginn 22.maí og miðvikudaginn 27.maí.
Fyrir áhugasama um Haraldinn þá eru að hefjast ný námskeið núna í maí. Bæði ungmennanámskeið og fleiri. Frekari upplýsingar um þau eru inni á þessari facebook síðu: www.facebook.com/haraldurinn.
Ný barnasýning fyrir áhorfendur á aldrinum 6 mánaða til 3ja ára.
Bíbí og blaka í samstarfi við Þjóðleikhúsið.
Danshöfundur: Tinna Grétarsdóttir
Tónskáld: Sólrún Sumarliðadóttir
Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir
Dansarar: Inga Maren Rúnarsdóttir og Snædís Lilja Ingadóttir.
Þær Fetta Flækja og Flétta Bretta þurfa að púsla saman umhverfi sínu – ævintýraheimi þar sem form, litir, hreyfingar og hljóð mynda loks eina heild. Að lokinni hálftíma sýningu býðst börnunum að koma upp á svið og leika sér með leikmunina. Fyrsta verkefni Bíbí og blaka var barnasýningin Skýjaborg sem var frumsýnd í Kúlunni árið 2012. Sýningin hlaut afar góðar viðtökur, var tilnefnd til þrennra Grímuverðlauna og hlaut Menningarverðlaun DV í flokki danslistar.
Sýningin er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Barnamenningarsjóði.
Hlín Agnarsdóttir gagnrýnandi Djöflaeyjunnar telur upp fimm sýningar sem standa upp úr á leikárinu sem er að ljúka.
Þetta eru eftirfarandi sýningar í frumsýningaröð:
OFSI í uppfærslu leikhópsins Aldrei óstelandi. Leikstjóri: Marta Nordal. Leikgerð eftir skáldsögu Einars Kárasonar gerð af Mörtu Nordal, leikhópnum og Jóni Atla Jónassyni. Frumsýnt í Kassanum 23. nóvember 2014.
SJÁLFSTÆTT FÓLK – HETJUSAGA í uppfærslu Þjóðleikhússins. Leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarsson. Leikgerð eftir skáldsögu Halldórs Laxness gerð af Atla Rafni Sigurðarsyni, Ólafi Agli Egilssyni og Símoni Birgissyni. Frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins 26. desember 2014.
DÚKKUHEIMILIÐ eftir Henrik Ibsen í uppfærslu Borgarleikhússins. Leikstjóri: Harpa Arnardóttir. Frumsýnt á stóra sviði Borgarleikhússins 30. desember 2014.
HYSTORY eftir Kristínu Eiríksdóttur í uppsetningu leikhópsins Sokkabandið. Leikstjóri: Ólafur Egill Egilsson. Frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins 27. mars.
ENDATAFL eftir Samuel Beckett í uppsetningu leikhópsins Svipa. Leikstjóri: Kristín Jóhannesdóttir. Frumsýnt í Tjarnarbíói 1. maí 2015.
Í komandi viku býður Íslendinga sannkölluð dansveisla þegar tveir erlendir danshópar koma til landsins. Þetta er annars vegar pólski danshópurinn Polish Dance Theatre og hins vegar norskur danshópur sem kennir sig við stofnanda hans, Jo Strømgren Kompani. Koma danshópanna til landsins tengist samstarfi við Sjálfstæðu leikhúsin og verður sýnt á þremur stöðum á landinu.
Borgarleikhúsið tekur á móti Polish Dance Theatre 18. og 19. maí. Þar verður flutt sýningin Czterdzieści eða Fjörutíu. Sýningin fylgist með lífi konu frá því augnabliki sem hún fæðist árið 1973 og allt til afmælis hennar árið 2013. Á þessum fjórum áratugum stendur hún frammi fyrir efasemdum, von, baráttu, vali og ófyrirsjáanlegum atburðum. Öllu þessu mætir hún af hetjudáð með lífsviljann að leiðarljósi. Á þessu ferðalagi um kaótíska Evrópu tekst aðalpersónunni að feta meðalveginn milli eigin metnaðar og þeirra aðstæðna sem hún lendir í hverju sinni. Þessi sýning er þó ekki einungis saga einnar manneskju heldur verður hún um leið samnefnari fyrir ferðalag heillrar þjóðar en einnig dansleikhússins. Pólland gekk í gegnum róttækar breytingar á síðastliðnum 40 árum en hverjar eru væntingar framtíðarinnar? Á 40 ára afmæli pólska dansleikhússins leitast þau við að svara sömu spurningu.
Sömu daga eða 18. og 19. maí mun Jo Strømgren Kompani sýna The Border í Tjarnarbíói. Þessi danssýning hefur verið sýnd um allan heim frá því að hún var fyrst frumsýnd í Tromsø í Noregi 2011. Maður og kona vinna saman á skrifstofu langt í burtu, en samt svo nærri. Þau virðast umgangast hvort annað af gagnkvæmri virðingu en undir yfirborðinu geisar stríð, bæði vilja ná yfirráðum yfir svæðinu. Kannski er þó meira í húfi, eins og kemur í ljós þegar þau uppgötva fíkn sína fyrir ástríðu. Ástríðu fyrir hvoru öðru, ástríðu fyrir leiknum sjálfum eða hinni grimmu blöndu þess beggja eins og oft vill vera í samskiptum kynjanna. Ef við leyfum ímyndunaraflinu að leika lausum hala opnum við fyrir frekari skilning. Getur verið að þessi erfiða sambúð eigi eitthvað sameiginlegt með klassískri landamæradeilu milli tveggja þjóða?
Að lokum leggja svo danshóparnir enn undir sig fót og fara saman til Akureyrar þar sem sýningarnar verða sýndar hvor á eftir annarri í Menningarhúsinu Hofi. Póslki flokkurinn ríður á vaðið með Czterdzieści þann 21. maí og norsku listamennirnir klára svo þessa miklu dansveislu með sýningu á The Border 22. maí.
Verkefnið er fjármagnað með styrkjum frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi.
Hér er hægt að kaupa miða á Czterdzieści:
Hér er hægt að kaupa miða á The Border: