Um þessar mundir setur Leikfélag Hólmavíkur upp leiksýninguna Sweeney Todd – morðóði rakarinn við Hafnagötuna. Leikstjóri er Eyvindur Karlsson og í leikarahópnum er góð blanda yngri og reynslumeiri áhugaleikara.
Þessi magnaða sýning býður upp á ferðalag um allan tilfinningaskalann – blóð, svita og tár!
Athygli er vakin á því að sýningin hentar ekki ungum börnum né viðkvæmum sálum. Börn yngri en 12 ára skulu vera í fylgd með fullorðnum.
Áhugi Strandamanna fyrir leiklist er rómaður og hefur Leikfélag Hólmavíkur staðið fyrir metnaðarfullum leiksýningum um margra ára bil. Þar fá ungir sem aldnir tækifæri til að stíga á stokk og spreyta sig í þeirri merku list að koma fram á sviði. Grunnskólanemendur á staðnum kynnast leiksviðinu snemma og fá mörg tækifæri til að koma fram, sem skilar sér í öflugum leikhóp og eftirminnilegum sýningum. Enda eru kjörorð Leikfélags Hólmavíkur: Það er svo gaman að leika!
Sýnt verður 21., 23. og 28. febrúar. Fleiri sýningar verða auglýstar síðar á Facebook síðu Leikfélags Hólmavíkur.
Miðapantanir eru hjá Ester í síma: 693-3474.
Framleiðandinn Eva Sigurðardóttir þreytir frumraun sem leikstjóri.
Askja Films er ungt kvikmyndafyrirtæki í eigu Evu Sigurðardóttur, en
fyrirtækið framleiðir meðal annars tvær stuttmyndir á kvikmyndahátíðinni
Stockfish, sem fram fer um þessar mundir í Bíó Paradís. Einungis fimm
myndir urðu fyrir valinu í keppnina um bestu íslensku stuttmyndina á Stockfish
og eru tvær af þeim framlög frá Askja Films. Um er að ræða annars vegar
myndin Foxes, sem leikstýrt er af spænska leikstjóranum Mikel Gurrea, og
hins vegar The Substitute, í leikstjórn Nathan Hughes-Berry.
Sýningar á Foxes og The Substitute verða í Bíó Paradís á eftirfarandi tímum:
Þriðjudagurinn 24. febrúar, kl. 20 í sal 1 (sérstök Q&A sýning)
Föstudagurinn 27. febrúar kl. 22 í sal 2
Sunnudagurinn 1. mars kl. 16 í sal 1
Foxes – Teaser: https://vimeo.com/120052171
The Substitute – Trailer: https://vimeo.com/108406139
Eva Sigurðardóttir hefur framleitt fjölda stuttmynda auk annarra verkefna og
m.a. verið tilnefnd til hinna virtu BAFTA verðlauna fyrir framleiðslu á
stuttmyndinni Good Night árið 2013. Í lok mars mun Eva Sigurðardóttir þreyta
frumraun sína sem leikstjóri með stuttmyndinni Regnbogapartý. Myndin fjallar
um Soffíu, 14 ára stelpu, sem er lögð í einelti og þráir ekkert heitar en að falla
í hópinn. Hún tekur afgerandi skref til þess að ná markmiði sínu en það dregur
stærri dilk á eftir sér en hana hafði grunað. Eva Sigurðardóttir skrifar einnig
handritið á myndinni en þetta er í fyrsta sinn sem Askja Films framleiðir mynd
sem tekin er upp á Íslandi.
Regnbogapartý Teaser: https://vimeo.com/105820441
Regnbogapartý er gerð í samstarfi við Saga film með styrk frá KMÍ:
Stuttmyndin Regnbogapartý sem verður tekin í lok mars fær stuðning og
meðbyr úr ýmsum áttum. Eva fór til Cannes á síðasta ári og sigraði þar pitchkeppni
SHORTS-TV og hlaut 5.000 evrur fyrir sem nýtist í framleiðslu
myndarinnar. Einnig var handritið að Regnbogapartý valið í Doris Films
verkefnið sem er á vegum WIFT á Íslandi. Myndin er framleidd í samstarfi við
Saga film en einnig styrkt af Evrópu unga fólksins og Kvikmyndamiðstöð
Íslands. Þess utan hlaut myndin framleiðslustyrk frá Bretlandi í gegnum Film
London þar sem að verkefnið var valið úr hundruðum annara í gegnum
London Calling keppnina.
Nánari upplýsingar er að finna á facebooksíðu Askja films
www.facebook.com/askjafilms og heimasíðunni www.askjafilms.com
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Leikkona. Er að leika Nóru i Dúkkuheimilinu og Írisi í Er ekki nóg að elska? Hvort tveggja í Borgarleikhúsinu.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Hrútur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Skáld og óperusöngkona.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Jákvæð en óstundvís.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Sjávarréttir og íslensk kjötsúpa.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Sá Ofsa og fannst hún ofsalega góð.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Kvikmyndir, ferðalög og matarboð í góðra vina hópi (ef það telst til áhugamála)
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Nick Cave, Jeff Buckley, John Grant, Radiohead, Bach, Björk, Tinu Dickow, Gus Gus ofl ofl…
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Fátt en þá helst hroki, yfirlæti og mannfyrirlitning.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Snæfellsnesið og Ásbyrgi.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Torgin í Flórens og mannlífið á götum New York.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
London.
Eiga hund eða kött?
Kött.
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Vín.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Sjónvarp.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Bað.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Glöð.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
all you need is love…
Leikfélag Hveragerðis æfir nú af kappi leikritið „Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan“. Leikritið er eftir Marc Camoletti en leikgerð og þýðing eftir Sigurð Atlason. Leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir.
Leikritið fjallar um Jónatan sem býr með þremur flugfreyjum, þeim Herdísi, Hafdísi og Hjördísi, sem allar vinna hjá sitthvoru flugfélaginu og koma heim á mismunandi tímum og vita ekki hver af annari. Á heimilinu er einnig heimilishjálpin Dísa. Hlutirnir fara svo að flækjast þegar Róbert vinur Jónatans kemur í heimsókn og fær að búa hjá honum nokkra daga.
Leikritið er ærslafullur farsi þar sem einn kemur þá annar fer. Nokkur þekkt sönglög eru flutt í leikritinu eins og t.d. Ég fell bara fyrir flugfreyjum, Rassmus, I wont to brake free, Fly me to the moon og fleiri.
Leikarar eru Davíð Michelsen, Hjörtur Benediktsson, Hrafnhildur Faulk, Irma Lín Geirsdóttir, Hrefna Ósk Jónsdóttir og Elín Hrönn Jónsdóttir. Stefnt er að frumsýningu laugardaginn 28. Febrúar í Leikhúsinu Austurmörk 23 í Hveragerði.
Einnig má sjá myndir og fréttir á facebóksíðu Leikfélags Hveragerðis.
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Nemandi á Sviðshöfundabraut LHÍ og almennt týndur verðandi sviðslistamaður.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Hrútur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Ég ætlaði alltaf að verða töframaður eða leikari eða útvarpsmaður eða sjónvarpsmaður eða bara eitthvað sem svalaði hinni óseðjandi athyglissýki.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Minn helsti kostur er hvað ég er skemmtilegur og fallegur. Minn helsti galli er sjálfumgleði.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Núðluskálin er snilld! Áfram Núðluskálin! Það er mikill rígur á milli Núðluskálar- og Noodle Station aðdáenda. Sjálfur skil ég ekki ríginn, enda er Noodle Station viðbjóður.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Sjálfstætt fólk, og það er orðið vandræðalega langt síðan.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Spunaleikhús er það besta sem hefur komið fyrir mig. Haraldurinn er byrjaður að tröllríða Íslandi og allir sem hafa áhuga á leikhúsi VERÐA að prófa!
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Ég hlusta rosalega mikið á danstónlist. Svona úmff tss úmff tss. Mörgum finnst það einhæft, mér finnst það medíterandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Taugaboð? Ehehehe.. Neinei. Ég veit ekki. Mér finnst hrokafullt að svara svona spurningu. Ég vil frekar tala um hvað mér finnst mest snilld. Og mér finnst skemmtilegt og opið og inspírerandi fólk sem fylgir draumunum sínum mest snilld.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Miðbærinn? Eða er það of stór staður? Eða Vesturbærinn? Er ég að hugsa of almennt hérna? Er ég að spyrja of margra spurninga?
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Öööööööö… West End? Eða hreinlega Amsterdam. Ég veit ekki.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
London.
Eiga hund eða kött?
Hund.
Borða heima heima eða úti daglega?
Úti.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Kvöldin.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Vín.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Sjónvarp.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Ööööö…
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Jájá. Bara, þú veist. Áfram leikhús. Og list. Og áfram Ísland. Fólk er snilld. Og allt er snilld. Og þetta reddast. Svo ekki hafa áhyggjur. Því allt er snilld. Ég veit ekki. Kíkið á Haraldinn! Og styðjið ungt íslenskt leiklistarfólk.
Borgarstjórinn liggur undir grun um fjárdrátt og lögreglan undirbýr gildru á móteli til að standa hann að verki. Fljótt kemur í ljós að lögreglufulltrúarnir tveir eru kannski ekki þeir allra hæfustu og samband annars þeirra við kynsveltan endurskoðanda í næsta herbergi einfaldar ekki framvinduna. Þegar við þetta bætast svo óöruggur öryggisvörður úr Ráðhúsinu, illskiljanlegur leigumorðingi og elskuleg borgarstjórafrú er ekki von á góðu.
Svona hefst Óþarfa offarsi, átta hurða, léttgeggjaður farsi sem Leikfélag Kópavogs frumsýnir laugardaginn 21. febrúar næstkomandi. Verkið er eftir Paul Slade Smith og leikstýrt af Herði Sigurðarsyni sem einnig þýðir.
Sýningin gerist í tveimur samliggjandi mótelherbergjum. Lögreglan hefur komið sér fyrir öðrum megin og sett upp upptökubúnað í hinu herberginu þar sem nýr endurskoðandi borgarinnar á bókaðan fund með borgarstjóranum. Innangengt er á milli herbergjanna og eins og vænta má í góðum farsa er mikil umferð um dyrnar átta sem eru á sviðinu.
Sjö leikarar taka þátt í sýningunni en fjöldi manns að auki hefur unnið hörðum höndum undanfarnar vikur við smíði leikmyndar, gerð búninga, hönnun ljósa, hljóðs og annars sem slík sýning krefst.
Óþarfa offarsi sem heitir Unnecessary farce á frummálinu var fyrst frumsýndur í Bandaríkjunum árið 2006 en hefur síðan verið sýndur víða um heim og nú er komið að frumflutningi hér á landi.
Leikfélag Kópavogs hefur farið mikinn á undanförnum árum og fjöbreytnin í verkefnavali verið mikil. Á síðasta ári setti félagið t.d. upp rómaða sýningu á Þremur systrum eftir Anton Tsjekhov og í október var Elskhuginn eftir Nóbelskáldið Harold Pinter á fjölunum.
Eftir dramatískt tímabil er hinsvegar komið að því að kitla hláturtaugarnar svo um munar. Óþarfa offarsi hefur fengið frábærar viðtökur úti í heimi og fróðlegt verður að sjá hvernig hann fer í íslenska áhorfendur.
Nánari upplýsingar um sýninguna má fá á vef félagsins http://kopleik.is/
Um höfundinn:
Paul Slade Smith er bandarískur leikari og leikskáld. Óþarfa offarsi sem heitir á frummálinu Unnecessary farce er hans þekktasta og víðleiknasta leikrit. Verkið var fumflutt í Bandaríkjunum árið 2006 og hefur síðan verið sett upp 145 sinnum víðsvegar um heiminn. Uppfærsla Leikfélags Kópavogs er frumflutningur á verkinu á Íslandi.
Sunnudaginn næstkomandi, 15. febrúar, mun Leikfélag Hafnarfjarðar vera með workshop/audition fyrir næstu leiksýningu sína. Vinnubúðirnar verða frá kl. 13 – 17 í Gúttó, Suðurgötu 7, í Hafnarfirði. Sýningin verður devised uppsetning á einu frægasta verki franska absúrdismans; Bubbi kóngur eftir Alfred Jarry. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir sem er að góðu kunn fyrir allt mögulegt.
Valið verður í leikarahópinn eftir vinnubúðirnar. Æfingatímabil er frá 23. febrúar til 7. apríl. Æfingar verða á virkum kvöldum og um helgar.
Leikarar, söngvarar og tónlistarfólk allskonar er allt velkomið.
Ef þið viljið vera með, sendið þá póst á leikfelag@gmail.com
KADA, The Kogan Academy of Dramatic Arts, er einn af leiðandi einkaskólum í leiklist á Englandi. Hann er víða þekktur fyrir aðferðir sínar, sem eru byggðar á kerfi Stanislavski. Stofnandi skólans, Sam Kogan, lærði undir nemanda Stanislavski og ákvað að þróa kenningar hans lengra, eftir að hann flutti frá Rússlandi til Englands.
Á námsskeiðinu verður fjallað um skólann og kenninguna sem hann er kenndur við, the Science of Acting. Umfjöllunarefni námskeiðisins eru meðal annars: Hvað er leiklist? Hvert er hlutverk leikarans? Hvað mótar persónuleika? Hvernig getum við endurskapað þá mótun? Máttur ímyndunaraflsins, samband hugsanna og tilfinninga og til hvers að læra leiklist? Námskeiðið er fyrir alla, hvort sem um er að ræða þá sem vilja kynna sér skólann fyrir inntökupróf eða fólk í atvinnugreininni sem vill kynna sér þessa aðferð sem og skólann.
Þátttaka er öllum að kostnaðarlausu en nauðsynlegt er að skrá sig. Skráningar fara fram á vala@scienceofacting.com – takmarkaður þátttakendafjöldi.
Námskeiðið verður haldið í Tjarnarbíói þriðjudaginn 3. mars kl. 17:00-19:00
www.facebook.com/scienceofacting
Twitter: @koganacademy
www.scienceofacting.com
· Hádegistónleikar Íslensku óperunnar í Norðurljósum þriðjudaginn 17. febrúar kl. 12.15
· Aríur eftir Wagner og Weber, ítölsk og íslensk sönglög eftir Karl O. Runólfsson, Sigvalda Kaldalóns, Tosti og Cardillo í flutningi eins fremsta tenórsöngvara okkar, Kolbeins Ketilssonar
· Aðgangur ókeypis
Tenórsöngvarinn Kolbeinn Jón Ketilsson flytur íslensk og ítölsk sönglög, auk aría úr óperum eftir Carl Maria von Weber og Richard Wagner á næstu hádegistónleikum Íslensku óperunnar í Norðurljósum í Hörpu, ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Tónleikarnir fara fram þriðjudaginn 17. febrúar og hefjast kl. 12.15. Yfirskrift tónleikanna er „Í fjarlægð“, en Kolbeinn mun hefja tónleikana á flutningi þessa þekkta lags Karls O. Runólfssonar.
Kolbeinn er einn okkar fremsti tenórsöngvari og hefur sungið mörg veigamestu tenórhlutverk óperubókmenntanna, m.a. Tristan, Florestan, Erik, Tamino, Max, Cavaradossi og Don José sem og titilhlutverkin í Ævintýrum Hoffmanns, Don Carlo, Parsifal, Tannhäuser og Lohengrin. Hjá Íslensku óperunni hefur hann m.a. sungið Alfredo í La Traviata, Rodolfo í La Bohème, Erik í Hollendingnum fljúgandi og Tenórinn í Ariadne á Naxos. Kolbeinn hefur komið fram í óperum á öllum Norðurlöndunum, í Norður-Ameríku og víðsvegar um Evrópu, m.a. í Staatsoper í München, Parísaróperunni, óperunni í Genf og óperunni í Valencia, og starfað með mörgum frægustu hljómsveitarstjórum heims, m.a. Antonio Pappano, Lorin Maazel, Kurt Masur, Kent Nagano og Zubin Metha. Hann söng Radames í Aidu í fyrstu uppsetningu nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn árið 2005, og tenórhlutverkið í 9. sinfóníu Beethovens á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu undir stjórn Vladimirs Ashkenazy vorið 2011. Hann söng hlutverk Don José í uppfærslu Íslensku óperunnar á Carmen haustið 2013.
Aðgangur að tónleikunum er ókeypis eins og að öllum hádegistónleikum Íslensku óperunnar í vetur og eru gestir hvattir til að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti, því jafnan er fullt út úr dyrum á þá.
VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN
Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Fæddur Vesturbæingur með vestfirskt blóð, dansari, danshöfundur og guðfræðinemi. Um þessar mundir er ég að vinna að nýrri uppsetningu sem einn af meðlimum leikhópsins Sextán elskendur. Sýningin ber titilinn Minnisvarði og verður frumsýnd í byrjun mars í Tjarnarbíói. Hún mun bjarga mannslífum.
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Ég er fædd í krabbamerkinu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Mig langaði til þess að verða skurðlæknir! Ég var alltaf heilluð af innyflum.
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Ég er rosalega kappsöm og það getur reynst vel, en líka illa þegar ég reyni að gera allt of mikið í einu og það endar með kaos og uppnámi. Sem betur fer á ég erfitt með að æsa mig, en gott með að hlæja.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Morgunmaturinn.
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Ég sá nýlega Ekki hætta að anda, og var hrifin af kvenleikanum og ljóðrænunni.
Hvaða áhugamál áttu þér?
Tónlist, talnaspeki og ýmis önnur dulræn viðfangsefni.
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Tónlist sem samin var áður en ég fæddist.
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Neikvæðni og þröngsýni.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Sjórinn.
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Úff, erfitt! En ég gæti sagt lestar og matarmarkaðir. Og sjórinn.
HRAÐASPURNINGAR
Flytja til London eða New York?
New York
Eiga hund eða kött?
Hvorugt.
Borða heima heima eða úti daglega?
Úti.
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Morgnana.
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Vín.
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
Veldu: Sturtu eða bað?
Sturtu.
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Rauðhaus.
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Við verðum að muna að elska eins mikið og við getum, því við erum það sem við elskum.