Back to Top
2015 | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Elsku Míó minn í Útvarpsleikhúsinu um páskana

    apr 4, 2015   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Elsku mio minn1

    Um páskana frumflytur Útvarpsleikhúsið á Rás 1 fjölskylduleikritið Elsku Míó minn eftir skáldsögu Astrid Lindgren í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns. Þetta fallega verk, um hugrekki og vináttu, er það stærsta sem Útvarpsleikhúsið ræðst í á þessu leikári.

    Elsku Míó minn segir frá Bússa sem er munaðarlaus strákur sem býr hjá fósturforeldrum sínum, sem er ekki alltof vel við hann. Þau hefðu frekar viljað fá stelpu. Þau hafa sagt honum að mamma hans hafi dáið við fæðingu hans og að pabbi hans sé örugglega bara einhver ónytjungur. Einn daginn fer Bússi í sendiferð út í bakarí. Í ferðinni finnur hann flösku sem er engin venjuleg flaska. Bússi sér eitthvað hreyfa sig ofan í henni og þó að hann hafi oft heyrt sögur um anda sem búa í flöskum trúir hann ekki sínum eigin augum þegar andi skýst út um stútinn á flöskunni hans. Bússi á líka bágt með að trúa því sem andinn segir – að hann sé kominn frá Landinu í fjarskanum til að sækja hann! Bússi sé í rauninni sonur konungsins þar og heiti í raun og veru Míó. Hans bíði mikið og stórt hlutverk í Landinu í fjarskanum. Bússi eða Míó eins og hann heitir í raun og veru, ferðast með andanum yfir í Landið í fjarskanum.

    Kolbrún Halldórsdóttir er leikstjóri verksins og Einar Sigurðsson sér um tónlist og hljóðvinnslu á verkinu. Átján leikarar taka þátt í uppfærslunni og þar af átta börn. Ágúst Beinteinn Árnason er í hlutverki Míós og vin hans JúmJúm leikur Theodór Pálsson. Konungurinn, faðir Míós, er leikinn af  Ingvari E. Sigurðssyni og Kató, riddarann illa, leikur Benedikt Erlingsson. Aðrir leikendur eru: Hanna María Karlsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Þorsteinn Bachmann, Atli Þór Albertsson, Hinrik Ólafsson og Ólafur Darri Ólafsson. Börnin sem Míó og JúmJúm kynnast í Landinu í fjarskanum eru leikin af Kolbeini Högna Gunnarssyni, Skarphéðni Vernharðssyni, Degi Brabin Hrannarssyni, Steinunni Lárusdóttur, Matthíasi Davíð Matthíassyni og Emilíu Bergsdóttur.

    Elsku Míó minn verður flutt í þremur hlutum: 1. hluti á föstudaginn langa, 2. hluti á páskadag og 3. og síðasti hluti á annan dag páska, á Rás 1 alla dagana klukkan 15.00. 

    Gói til Þjóðleikhússins

    apr 4, 2015   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    gói

    Leik­ar­inn Guðjón Davíð Karls­son (betur þekktur sem Gói) stend­ur á tíma­mót­um – næsta haust mun hann fara yfir í Þjóðleik­húsið en hann hef­ur verið fa­stráðinn í Borg­ar­leik­hús­inu. Ari Matth­ías­son þjóðleik­hús­stjóri er að vinna að sínu fyrsta leik­ári með til­heyr­andi breyt­ing­um. 

    Gói hef­ur um ára­bil leikið fjöl­mörg burðar­hlut­verk í Borg­ar­leik­hús­inu og þar áður hjá Leik­fé­lagi Ak­ur­eyr­ar en á báðum stöðum var hann einn helsti burðarás leik­hús­anna. Börn lands­ins þekkja hann einnig sem Góa í Stund­inni okk­ar og úr bíó­mynd­um með Sveppa sem slegið hafa í gegn hjá yngstu kyn­slóðinni. Fyrsta hlut­verk Góa hjá Þjóðleik­hús­inu verður eitt aðal­hlut­verkið í Hróa hetti sem  Þjóðleik­húsið frum­sýn­ir í sam­starfi við Vest­urport í sept­em­ber. 

    „Mark­mið okk­ar í Þjóðleik­hús­inu er að ráða bestu leik­ara lands­ins til starfa og við erum spennt að fá Guðjón Davíð til liðs við okk­ur. Hann er fjöl­hæf­ur leik­ari og elskaður og dáður,“ seg­ir Ari. 

    Eddan

    apr 3, 2015   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Eddann

    Verkið fjallar um leikkonu á besta aldri að nafni Edda Björgvinsdóttir. Leikkonan er boðuð í viðtal í vinsælan spjallþátt til að ræða um feril sinn og slá á létta strengi.

    Stjórnandi þáttarins, Gunnar Hansson, og aðstoðarmaður hans, Bergþór Pálsson, átta sig þó fljótlega á að leikkonan hefur aðrar hugmyndir um þáttinn en þeir. Lengi getur vont versnað og sjaldan hefur það átt betur við en einmitt núna.

    Handrit er eftir Björk Jakobsdóttur og Eddu Björgvinsdóttur. Leikstjórn er í höndum Gunnars Helgasonar.

    Sýningin er sett á svið í Gamla bíói þaðan sem flesit Reykvíkingar eiga góðar minningar. Salurinn hefur verið endurnýjaður á glæsilegan hátt og það er Eddunni mikill heiður að fá að vera fyrsta sýningin sem sett er upp i þessu nýja leikhúsi borgarinnar.

    Leiklistarnámskeið í apríl

    apr 2, 2015   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Kopleik

    Leiklistarnámskeið í apríl

    Leikfélag Kópavogs stendur fyrir leiklistarnámskeiði í apríl. Námskeiðið er aðallega ætlað félögum með minni reynslu  sem hafa áður sótt námskeið hjá félaginu og/eða tekið þátt í styttri uppsetningum. Ekki er þó loku skotið fyrir að aðrir  komist að en núverandi félagar ganga þó fyrir. Leiðbeinandi er Hörður Sigurðarson sem haldið hefur nokkur  byrjendanámskeið hjá félaginu á undanförnum árum og er þetta námskeið öðrum þræði hugsað sem framhald á  þeim. Námskeiðið verður í 6 skipti og tekur hver tími um 3 klst. Nánari tímasetningar auglýstar síðar.

    Aðgangur er ókeypis fyrir núverandi félaga en námskeiðsgjald er annars 7.500 kr.

    Áhugasamir sendi póst á lk@kopleik.is.

    Carroll: Berserkur

    apr 2, 2015   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Carroll

    Hver er þín staða og hlutverk á taflborðinu? Stjórnar þú þínu eigin lífi, eða er einhver annar sem leikstýrir því?

    Ferðist með litríkum persónum úr undralandi Lísu í gegnum draumkennda heima sem leitast við að svara þessum spurningum.

    Leikhópurinn Spindrift kynnir gagnvirkt þáttökuleikhús um hinar ólíku hliðar mannsins í gegnum kynjaverur Undralands.

    Atburðirnir eru spunnir út frá spurningum hópsins um samfélagsleg gildi og rannsakar hvað megi sýna og hvað þurfi að fela í daglegu lífi.

    Galsafull og ryþmísk skrif rithöfundsins Lewis Carroll eru nýtt fyrir áþreifanlegan og tilraunakenndan stíl leikhópsins. Sýningin sameinar raunveruleika okkar og skáldskap Lísu í Undralandi í gegnum gagnvirt þáttökuleikhúss sem ferðast um ólík rými Tjarnarbíós. Áhorfandinn gengur inn í draumaheim þar sem töfrar leikhússins skapa ævintýralega veröld með óvanalegum uppákomum.

    Lísa gengur í gegnum sjálfsþekkingarleit þar sem hún stækkar og minnkar eftir því sem hún mætir ólíkum hliðum manneskjunnar í hinum ófyrirsjáanlegu verum Undralands.

    Leikhópurinn
    Spindrift Theatre er norrænn leikhópur sem hefur verið starfandi síðan árið 2013. Hópinn skipa fjórar ungar konur, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir (Íslandi), Sólveig Eva Magnúsdóttir (Íslandi), Henriette Kristensen (Noregi) og Anna Korolainen (Finnlandi). Meðlimir hópsins lærðu og útskrifuðust úr breska leikhússkólanum Rose Bruford College árið 2013. Spindrift Theatre er tilraunagjarn og framsækinn leikhópur sem leggur áherslu á að skapa út frá forvitni leikarans á eðli mannsins og lífinu sjálfu.

    Spindrift sýndi fyrst á Íslandi árið 2013 sýninguna Þríleikur í Gaflaraleikhúsinu og Frystiklefanum í Rifi. Hópurinn sýndi fyrstu þróun að Carroll: Berserk í Drayton Arms Theatre í London á síðasta ári.

    Takmörkuð fatageymsla verður í boði og ekki verður hægt að taka bakpoka og töskur með í salinn.

    Áhorfendur munu gangi í gegnum Tjarnarbíó í 90 mínútur.

    Sýningin fer fram á íslensku og er ekki við hæfi barna.
     

    Eggert Arnar Kaaber þolir ekki þegar að Liverpool tapar!

    mar 25, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN

    Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
    Ég er leikari og starfa með Stoppleikhópnum ásamt því að kenna leiklist.
     
    Í hvaða stjörnumerki ertu?
    Steingeitinni.
     
    Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
    Leikari eða fótboltamaður.
     
    Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
    Læt aðra um að dæma það.
     
    Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
    Hakk og Spagettí.
     
    Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
    „Öldin Okkar“ með Hund í Óskilum.
    Frábær sýning í alla staði.
     
    Hvaða áhugamál áttu þér?
    Fótbolti, Vynil-plötur, leikhús og utanlandsferðir.
     
    Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
    Rokk, Ska og Reggae.
     
    Hvað fer mest í taugarnar á þér?
    Þegar Liverpool tapar í fótbolta.
     
    Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
    Reykjavík, Akureyri og Egilsstaðir.
     
    Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
    London, Barcelona og Berlín.
     

    HRAÐASPURNINGAR

    Flytja til London eða New York?
    Hvorugt.
     
    Eiga hund eða kött?
    Hund.
     
    Borða heima heima eða úti daglega?
    Heima.
     
    Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
    Kvöldin.
     
    Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
    Hvorugt.
     
    Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
    Lesa.
     
    Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
    Andlit.
     
    Veldu: Sturtu eða bað?
    Bað.
     
    Veldu: RÚV eða Stöð 2?
    Get ekki gert upp á milli.
     
    Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
    Umburðarlyndur.
     
    Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
    Allir að sjá leiksýninguna: „Upp Upp“ æskusögu Hallgríms Péturssonar í uppsetningu Stoppleikhópsins.
     

    Fjalla – Eyvindur og Halla

    mar 18, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 26. mars á Stóra sviðinu eitt magnaðasta verk íslenskra leikbókmennta, Fjalla–Eyvind og Höllu eftir Jóhann Sigurjónsson, í uppsetningu Stefan Metz.

    Sögur af útilegumanninum Fjalla-Eyvindi og hinni stórlyndu ástkonu hans, Höllu, sem uppi voru á átjándu öld hafa lifað góðu lífi með íslensku þjóðinni allt fram á okkar daga. Leikrit Jóhanns Sigurjónssonar er átakamikið og grípandi, skrifað af næmum mannskilningi og býr yfir mikilli harmrænni dýpt.

    Halla er efnuð ekkja sem ræður Eyvind til sín sem vinnumann. Þau verða ástfangin og þegar Eyvindur neyðist til að flýja til fjalla, vegna saka úr fortíðinni, ákveður Halla að fara með honum. Inni á hálendi Íslands bíður þeirra hatrömm barátta við hörð náttúruöfl, einsemd, útskúfun og ofsóknir. En ekki síður þurfa þau að glíma við eigin tilfinningar og takast á hvort við annað. Getur ást þeirra staðið af sér þessa þolraun?

    Uppsetning Stefans Metz á Eldrauninni eftir Arthur Miller hér í Þjóðleikhúsinu á liðnu leikári vakti mikla hrifningu. Metz setti hér upp á sínum tíma Krítarhringinn í Kákasus, og hefur leikstýrt fjölda verka í leikhúsum víða um Evrópu.

    Með hlutverk elskendanna fara Stefán Hallur Stefánsson og Nína Dögg Filipusdóttir. Aðrir leikarar í sýningunni eru Esther Talía Casey, Kristinn Óli Haraldsson, Oddur Júlíusson, Pálmi Gestsson, Ragnheiður Steindórsdóttur, Sigurður Sigurjónsson, Steinn Ármann Magnússon, Tinna Gunnlaugsdóttir og Þórhallur Sigurðsson.

    Er ekki nóg að elska?

    mar 18, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    · Nýtt verk frá Birgi Sigurðssyni höfundi Dags vonar

    · Kristbjörg Kjeld fer með aðalhlutverk

    · Leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason

    Föstudaginn 20.mars kl 20 frumsýnir Borgarleikhúsið á Nýja sviðinu verkið Er ekki nóg að elska? eftir Birgi Sigurðsson. Birgir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir fyrri verk sín. Hilmir Snær Guðnason leikstýrir og fremst í flokki leikara er Kristbjörg Kjeld.

    SUM SVIK ERU SVO STÓR AÐ ÞAU VERÐA EKKI GRAFIN

    Verkið: Er ekki nóg að elska? er raunsæisleg og kraftmikil fjölskyldusaga sem lýsir fjölskylduátökum um leyndarmál sem ekki mega koma upp á yfirborðið því þau sverta þar með minningu mektarmanns. Jarðarför hans stendur fyrir dyrum og ekkjan berst hetjulega fyrir sóma hússins og minningu mikils stjórnmálamanns og hreinskiptins eiginmanns sem hefur gert afar óvenjulega kröfu í erfðaskránni.

    Birgir Sigurðsson er eitt fremsta núlifandi leikskáld okkar. Fyrsta leikrit hans, Pétur og Rúna, var sett á svið árið 1973. Leikritið vann til fyrstu verðlauna, ásamt Kertalogi Jökuls Jakobssonar, í leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur í tilefni af 75 ára afmæli félagsins árið 1972.

    Dagur vonar var frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1987 og 2007 og naut gífurlegra vinsælda í bæði skiptin. Leikritið var einnig tekið upp fyrir sjónvarp og tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1989.

    Aðstandendur Höfundur: Birgir Sigurðsson | leikstjóri: Hilmir Snær Guðnason |Tónlist: Björn Jörundur Friðbjörnsson | Leikmynd: Vytautas Narbutas | búningar: Stefanía Adolfsdóttir | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson | Leikarar: Kristbjörg Kjeld, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson.

    Hystory

    mar 11, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Föstudaginn 27.mars kl 20:00 frumsýnir Borgarleikhúsið í samstarfi við Leikfélagið Sokkabandið nýtt íslenskt verk eftir Kristínu Eiríksdóttur. Verkið Hystory er leikstýrt af Ólafi Agli Egilssyni og leikkonurnar Arndís Hrönn Egilsdóttir, Birgitta Birgisdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir leika í sýningunni.

    ÞRJÁR VINKONUR SEM ERU EKKI VINIR Á FACEBOOK HITTAST OG DREKKA LANDA!

    Leikhópurinn Sokkabandið frumsýnir nýtt íslenskt verk, Hystory, eftir
    Kristínu Eiríksdóttur sem var nýverið tilnefnd til Íslensku
    bókmenntaverðlaunanna í Borgarleikhúsinu 27. mars, 2015.
    Leikkonurnar Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og
    Birgitta Birgisdóttir fara með hlutverkin í sýningunni en þær Elma Lísa
    og Arndís Hrönn hafa rekið Sokkabandið í um áratug og sett upp
    fjölmargar vandaðar sýningar. Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson slæst
    nú til liðs við Sokkabandið en þetta er í annað sinn sem systkinin Högni
    og Arndís Hrönn vinna saman í leikhúsi en þau unnu einnig nýverið
    saman að sýningunni Bláskjár eftir Tyrfing Tyrfingsson. Hystory er
    samstarfsverkefni Sokkabandsins og Borgarleikhússins en Kristín
    Eiríksdóttir var valin til að semja sérstaklega nýtt verk fyrir leikhópinn.

    Um verkið
    Dagný, Begga og Lilja voru bestu vinkonur í grunnskóla. Þegar þær voru
    fimmtán ára hættu þær að tala saman. Síðan eru liðin tuttugu ár.
    Þær mætast stundum á förnum vegi: í Melabúðinni, á Ægisíðunni eða í
    ræktinni úti á Nesi.Þær brosa, kinka kolli, segja: Sæææl … en hendurnar
    dofna ogþær verkjar í hjartað. Dagnýju finnst kominn tími til að þær
    hittist svo hún sendir þeim skilaboð á Facebook og býður þeim heim til
    sín í kaffi. Hana langar til að hreinsa andrúmsloftið en Beggu finnst ekki
    vera hægt að laga til í minningum annarra og Lilja man ekki neitt.

    Um höfundinn
    Kristín Eiríksdóttir er myndlistarmenntaður rithöfundur. Hún hlaut
    tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014 í flokki
    fagurbókmennta fyrir ljóðabókina Kok. Fyrsta bókin hennar, Kjötbærinn,
    kom út árið 2004. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit auðnin (2006)
    og Annarskonar sæla (2008). Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris
    deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld –
    fjölskyldusaga. Hún hefur einnig skrifað tvö leikrit: Karma fyrir fugla
    ásamt Kari Ósk Grétudóttur, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu í febrúar
    2013 og Skríddu sem sett var upp í Borgarleikhúsinu í apríl 2013.

    Aðstandendur
    Höfundur: Kristín Eiríksdóttir
    Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson
    Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger
    Lýsing: Valdimar Jóhannsson
    Tónlist: Högni Egilsson
    Hljóðfæraleikur: Claudio Puntin
    Hljóð: Baldvin Magnússon
    Leikarar: Arndís Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Birgitta
    Birgisdóttir

     

    Nánari upplýsingar er að finna á facebook síðu Sokkabandsins
    https://www.facebook.com/sokkabandid og facebook viðburðinum um Hystory
    https://www.facebook.com/events/1375474476105243/ sem og á heimasíðu
    Borgarleikhússins: http://www.borgarleikhus.is/syningar/hystory/ en miðasala er á
    www.midi.is

    Þóra Karítas Árnadóttir hlakkar til ársins 2015!

    mar 7, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN

    Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
    Um þessar mundir er ég að framleiða stuttmynd sem ber titilinn Regnbogapartý og er eftir Evu Sigurðardóttur, sjá um kynningarstörf fyrir Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur sem frumsýnt er í Borgarleikhúsinu á næstunni og að leggja lokahönd á leyniverkefni sem afhjúpast með vorinu.
     
    Í hvaða stjörnumerki ertu?
    Sporðdreki og Vog – Á mörkum…
     
    Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
    Ég velti fyrir mér læknisfræði, sálfræði og lögfræði þegar ég var um tvítugt og mátaði mig í hin ýmsu störf og lærði guðfræði, en komst að því að mig langaði að starfa við listir; verða leikstjóri, höfundur, leikari eða kvikmyndagerðarkona…
     
    Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
    Skipulagt kaos.
     
    Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
    Ég vildi að ég gæti sagt að ég væri vegan en hef ekki náð þeim punkti…önd með þunnum pönnukökum og agúrkum kemur upp í hugann og kalkúnn…
     
    Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
    Ég sá síðast æfingu á nýju verki eftir Kristínu Eiríksdóttur sem tilnefnd var fyrir skemmstu til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Verkið heitir Hystory og vísar titilinn í kvennasöguna en verkið fjallar um þrjár vinkonur sem eru ekki vinir á facebook og hafa ekki hist í 25 ár. Þær gera upp fortíðina með mjög eftirminnilegum hætti en verkið er uppfullt af ísköldum hversdagshúmor. Það er alltaf gaman að fylgjast með nýju íslensku verki eftir góða höfunda verða til í meðförum hæfileikaríks leikhóps.
     
    Hvaða áhugamál áttu þér?
    Náttúruupplifanir, heit böð, næturdraumar, flæðiskrif o.fl.
     
    Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
    Popp, rokk og klassík…
     
    Hvað fer mest í taugarnar á þér?
    Það fer eftir því hvort átt er við miðtaugakerfið eða úttaugakerfið og þá viltaugakerfið eða dultaugakerfið? Líklega eru áföll og streita verst fyrir kerfið sem og hugarbreytandi efni. Jafnvel kaffi og of mikill sykur geta stuðað taugarnar í næmu taugakerfi…
     
    Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
    Skjálfandafljótið er ægifagurt.
     
    Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
    London og Krít en sólarstaðir koma sterkir inn í augnablikinu.
     

    HRAÐASPURNINGAR

    Flytja til London eða New York?
    London.
     
    Eiga hund eða kött?
    Hund.
     
    Borða heima heima eða úti daglega?
    Heima.
     
    Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
    Kvöldin.
     
    Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
    Hvorugt.
     
    Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
    Lesa.
     
    Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
    Andlit.
     
    Veldu: Sturtu eða bað?
    Bað.
     
    Veldu: RÚV eða Stöð 2?
    Rúv.
     
    Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
    Supercalifragilisticexpialidocious.
     
    Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
    Ég hlakka til ársins 2015 – það er rétt að byrja…
     

    loading

    Takk fyrir að skrá þig!