Ein af umfangsmestu óperum Verdis, Don Carlo, verður frumsýnd hjá Íslensku óperunni þann 18. október, en óperan hefur aldrei verið sviðssett á Íslandi áður. Eingöngu íslenskir söngvarar taka þátt í sýningunni og ber þar fyrstan að nefna þekktasta óperulistamann Íslands um þessar mundir, bassasöngvarann Kristinn Sigmundsson, sem tekur þátt í óperuuppfærslu hjá Íslensku óperunni í fyrsta sinn í 12 ár og fer hér með eitt voldugasta bassahlutverk tónbókmenntanna, Filippus konung og föður Don Carlo.
Af öðrum söngvurum í sýningunni má nefna Jóhann Friðgeir Valdimarsson í titilhlutverkinu Don Carlo, Helgu Rós Indriðadóttur í hlutverki Elísabetar drottningar og hinn unga og upprennandi baritónsöngvara Odd Arnþór Jónsson, sem nýverið lauk söngnámi frá Mozarteum í Salzburg og sópar að sér spennandi verkefnum um þessar mundir, en hann verður í hlutverki Rodrigo. Auk þess syngja Hanna Dóra Sturludóttir, sem sló í gegn sem Carmen síðastliðið haust, hlutverk Eboli, Guðjón Óskarsson hlutverk Grand Inquisitor, en hefur aðallega sungið við erlend óperuhús á liðnum árum og söng m.a. í Arenunni í Verona á síðastliðnu ári og Viðar Gunnarsson, sem er íslenskum óperugestum að góðu kunnur í fjöldamörgum hlutverkum síðastliðin ár, syngur hlutverk Munksins. Þá verða Erla Björg Káradóttir og Hallveig Rúnarsdóttir í minni hlutverkum.
Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir sýningunni og er Páll Ragnarsson ljósahönnuður og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir búninga- og leikmyndahöfundur. Guðmundur Óli Gunnarsson er hljómsveitarstjóri. Flutt verður fjögurra þátta útgáfan af þessu mikla verki Verdi, og verður hún sungin á ítölsku með íslenskum skjátexta.
Frumsýning verður í Eldborg í Hörpu 18. október og eru þrjár aðrar sýningar ráðgerðar, í október og nóvember.
Sýningin er um þrjár klukkustundir og fimmtán mínútur að lengd með hléi.
Rómuð sýning Vesturports snýr enn á ný í Þjóðleikhúsið eftir sigurgöngu vítt og breitt um heiminn. Einstakt tækifæri!
Hamskiptin er ein rómaðasta sýning Vesturports og hefur verið sýnd víða um heim og fengið frábærar viðtökur. Hún var frumsýnd í Lyric Hammersmith leikhúsinu í London árið 2006 og í kjölfarið endurfrumsýnd í Þjóðleikhúsinu, og hlaut þá Grímuverðlaunin sem leiksýning ársins.
Hamskiptin eftir Franz Kafka er ein af þekktustu skáldsögum 20. aldarinnar. Leiksýningin er í senn ógnvekjandi og fyndin en í verkinu segir frá sölumanninum Gregor Samsa, sem vaknar upp einn morguninn í líki risavaxinnar bjöllu. Líf hinnar hversdagslegu Samsafjölskyldu breytist á svipstundu í einkennilega martröð.
Hamskiptin er mögnuð leikhúsupplifun þar sem leikmynd Barkar Jónssonar og lýsing Björns Helgasonar skapa einstæðan heim á leiksviðinu, og leikhópurinn fer á kostum undir seiðandi tónlist Nicks Cave og Warrens Ellis.
★★★★★
The Guardian, Michael Billington
Áfangastaðir á ferð Hamskiptanna um heiminn:
London – Reykjavík – London – Liverpool – Manchester – Birmingham – Newcastle – Plymouth – London – Seoul í Suður-Kóreu – Dublin – Hong Kong – Hobart í Tasmaníu – Wollongong í Ástralíu – Sydney – Bogotá í Kólumbíu – Reykjavík – New York – Malmö – St. Pétursborg – Norilsk í Rússlandi – Osló – Barcelona – München – Calgary í Kanada – London – Washington – Boston – Osló – Toronto – Osló – Reykjavík
Gunnar Andri Þórisson er upphafsmaður leikhus.is. Sagan á bak við
vefsíðuna er sú að í upphafi, jólin 2003, styrkti Söluskóli Gunnars
Andra (SGA) hinn þá nýstofnaða leikhóp Fimbulvetur. Hópurinn setti þá
upp hið bráðskemmtilega verk Ójólaleikrit eftir Jeff Goode. Styrkur
SGA var í formi auglýsinga og vefsvæðis fyrir leikhópinn.
Á þessum tíma kynntist Gunnar Andri því af eigin raun hve erfitt það
var fyrir lítinn atvinnuleikhóp að standa í markaðsstarfi og keppa við
stóru leikhúsin á einhverjum jafnréttisgrundvelli og fór hann því að
velta fyrir sér hvernig færa mætti leikhús nær almenningi og auka
möguleika bæði áhuga- og atvinnuleikhúsa og hópa til að kynna sig. Það
var svo þann 27. janúar 2004 að hugmyndin kviknaði – netið var besti
staðurinn til að sýna framboðið í leikhúslífi á Íslandi.
Eftirgrennslan leiddi í ljós að www.leikhus.is var laust og var það
keypt þegar í stað.Undirbúningur að upplýsinga- og þjónustuvef fyrir
leikhús á Íslandi var hafinn og í júní 2004 var fyrsta útgáfan af
leikhus.is komin á netið. Leikhus.is opnaði síðan formlega haustið
2004. SGA er enn aðal Mátarstólpi leikhus.is