Félagarnir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í hljómsveitinni Hundur í Óskilum voru farnir að gæla við þá hugmynd að setja á svið gríðarstórt sjóv með 20 dönsurum og leikurum í tilefni af 20 ára afmæli sveitarinnar. Þeir neyddust hins vegar til að sníða sér stakk eftir vexti og nú trana þeir engum öðrum fram en sjálfum sér (enn eina ferðina) í glænýju leik- og tónverki sem kallast Öldin okkar. Hundur í Óskilum er við sama heygarðshornið og í Sögu þjóðar, en spólar sig að þessu sinni í gegnum 21. öldina – þessi 14 ár sem liðin eru. Hundinum er náttúrlega ekkert íslenskt óviðkomandi; hann gefur sig í tali og tónum að mannlífinu til sjávar og sveita, ræður í gjörðir stjórnmálamanna og spyr allra spurninganna sem brenna í brjóstum leikhúsgesta. Frábær skemmtun með helstu tvenndarleikurum landsins! Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.
Sýningin verður sett upp í Samkomuhúsinu, aðsetri LA, í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og Menningarhúsið Hof. Frumsýning er 31. október.
Jólahátíð Skoppu og Skrítlu
Dansandi dádýr, svífandi stjörnur, elskulegir englar og nýfallinn snjór
Í aðdraganda jóla halda Skoppa og Skrítla mikla hátíð til að bjóða sjálfan jólasveininn velkominn til byggða. Hann kemur til að aðstoða þær við að fagna hátíð ljóss og friðar og útbúa gjafir fyrir alla góðu vinina og vinkonurnar. Þegar undirbúningur hátíðarinnar stendur sem hæst banka óvæntir gestir upp á. Jólasveinninn er í stökustu vandræðum. Nú reynir á hversu úrræðagóðar Skoppa og Skrítla eru…
Skoppa og Skrítla hafa verið í uppháhaldi hjá yngstu kynslóðinni um árabil, hvort sem er í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tónlist eða leiksýningum. Þær hafa verið áberandi í Borgarleikhúsinu undanfarin ár – en bjóða nú í fyrsta sinn til jólaskemmtunar. Sýningarnar Skoppa og Skrítla á tímaflakki og Skoppa og Skrítla í leikhúsinu slógu báðar í gegn og hlutu geysigóðar viðtökur.
Hentar börnum frá níu mánaða aldri
„Litríkir boðberar kærleika og gleði“ – SG, Mbl, 2013
„Framlag Skoppu og Skrítlu til barnamenningar er bæði þarft og kærkomið“ – HL, Mbl, 2007
„Skoppa og Skrítla eru bestu vinir yngstu barnanna og það er ekki nema von. Þær skilja hvað þau vilja og gefa þeim það í formi tónlistar, gleði og hláturs“ – HL, Mbl, 2007
„Til að kóróna allt saman virtust þær Skoppa og Skrítla ná að tala við hvert einasta barn á sýningunni“ – IML, Mbl, 2005
Höfundur: Hrefna Hallgrímsdóttir
Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson
Leikarar: Linda Ásgeirsdóttir, Hrefna Hallgrímsdóttir, Vigdís Gunnarsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Börn
„Byssur drepa ekki fólk – Fávitar með byssur drepa fólk“
MP5 gerist um borð í alþjóðlegri geimstöð í nálægri framtíð. Lífið í geimnum er ljúft, enda samanstendur þetta litla afmarkaða samfélag af vel menntuðum, víðsýnum, friðsömum og umburðalyndum einstaklingum.
En þegar slys á sér stað um borð og MP5 hríðskotabyssa kemur uppúr neyðarkassanum vaknar spurningin hvort, og þá hvernig, best er að nota byssuna.
MP5 er ný íslenskt lo-fi sci-fi satíra unnin af meðlimum Sóma þjóðar. Verkið er skrifað, leikið og því leikstýrt af Hilmi Jenssyni og Tryggva Gunnarssyni.
Vegna anna eru sýningarnar aðeins þrjár (allar kl. 20:00):
5. desember
12. desember
15. desember