Athyglisverðasta áhugaleiksýningin
Sýning Leikfélags Mosfellssveitar á Ronju ræningjadóttur var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2015 af dómnefnd Þjóðleikhússins. Úrslitin voru kynnt á hátíðarkvöldverði í tengslum við aðalfund BÍL að Melum í Hörgársveit í kvöld.
Í umsögn dómnefndar segir m.a. um sýninguna:
„Sýning Leikfélags Mosfellssveitar á Ronju ræningjadóttur er heillandi og fjörug barnasýning þar sem fjölmargir þættir koma saman og mynda áhrifaríka heild. Leikhópurinn er fjölmennur og sterkur, og leikarar í aðalhlutverkum standa sig afar vel. Tónlist er veigamikill þáttur í sýningunni, og söngatriðin vel útfærð. Sviðið er notað á skemmtilegan hátt þar sem hljómsveitin er hluti af sýningunni. Mikil alúð er lögð við útlit sýningarinnar, leikmyndin er hugvitssamleg og búningar og leikgervi vel unnin.“
Félaginu hefur verið boðið að sýna Ronju í Þjóðleikhúsinu fyrstu helgina í júní.