Elsku Míó minn í Útvarpsleikhúsinu um páskana
Um páskana frumflytur Útvarpsleikhúsið á Rás 1 fjölskylduleikritið Elsku Míó minn eftir skáldsögu Astrid Lindgren í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns. Þetta fallega verk, um hugrekki og vináttu, er það stærsta sem Útvarpsleikhúsið ræðst í á þessu leikári.
Elsku Míó minn segir frá Bússa sem er munaðarlaus strákur sem býr hjá fósturforeldrum sínum, sem er ekki alltof vel við hann. Þau hefðu frekar viljað fá stelpu. Þau hafa sagt honum að mamma hans hafi dáið við fæðingu hans og að pabbi hans sé örugglega bara einhver ónytjungur. Einn daginn fer Bússi í sendiferð út í bakarí. Í ferðinni finnur hann flösku sem er engin venjuleg flaska. Bússi sér eitthvað hreyfa sig ofan í henni og þó að hann hafi oft heyrt sögur um anda sem búa í flöskum trúir hann ekki sínum eigin augum þegar andi skýst út um stútinn á flöskunni hans. Bússi á líka bágt með að trúa því sem andinn segir – að hann sé kominn frá Landinu í fjarskanum til að sækja hann! Bússi sé í rauninni sonur konungsins þar og heiti í raun og veru Míó. Hans bíði mikið og stórt hlutverk í Landinu í fjarskanum. Bússi eða Míó eins og hann heitir í raun og veru, ferðast með andanum yfir í Landið í fjarskanum.
Kolbrún Halldórsdóttir er leikstjóri verksins og Einar Sigurðsson sér um tónlist og hljóðvinnslu á verkinu. Átján leikarar taka þátt í uppfærslunni og þar af átta börn. Ágúst Beinteinn Árnason er í hlutverki Míós og vin hans JúmJúm leikur Theodór Pálsson. Konungurinn, faðir Míós, er leikinn af Ingvari E. Sigurðssyni og Kató, riddarann illa, leikur Benedikt Erlingsson. Aðrir leikendur eru: Hanna María Karlsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Þorsteinn Bachmann, Atli Þór Albertsson, Hinrik Ólafsson og Ólafur Darri Ólafsson. Börnin sem Míó og JúmJúm kynnast í Landinu í fjarskanum eru leikin af Kolbeini Högna Gunnarssyni, Skarphéðni Vernharðssyni, Degi Brabin Hrannarssyni, Steinunni Lárusdóttur, Matthíasi Davíð Matthíassyni og Emilíu Bergsdóttur.
Elsku Míó minn verður flutt í þremur hlutum: 1. hluti á föstudaginn langa, 2. hluti á páskadag og 3. og síðasti hluti á annan dag páska, á Rás 1 alla dagana klukkan 15.00.